Litla ljónið og vogin
 

Fæðingarsaga Sigurðar Vopna

Þriðjudaginn 3.ágúst áttum við tíma hjá ljósmóður í reglubundna skoðun.  Ég var komin 5 daga fram yfir og orðin frekar þreytt á að ekki virtist bóla á krílinu né eitthvað benda til þess að það væri á leiðinni.  Skoðunin var frekar stutt, blóðþrýstingurinn athugaður, próteinið, legbotninn og hlustað á hjartsláttinn.  Ég fór upp ú 2 plúsa (eins og það er kallað) í próteininu og komin með háþrýsting 140/95 (ef ég man rétt).  Það var nóg til þess að ljósan vildi senda mig upp á dagönn í monitor til að ath betur hvernig krílið hefði það.  Hún átti svo von á að í framhaldi af þeirri skoðun yrði tekin ákvörðun um hvenær best væri að dagsetja gangsetningu.

Við Viggó fórum þá á spítalann og vorum komin þangað uppúr 2.  Ég settist í hálfgerðan Lazy-boy með monitora yfir bumbuna og blóðþrýstingurinn var tekinn við og við.  Þá kom í ljós að ég var bara með bullandi samdrætti (ein frekar græn að átta sig ekki á því {#emotions_dlg.wink}) en þeim fylgdu engir verkir né óþægindi.

Ljósurnar fengu svo fæðingalækni til að fara yfir ritið úr mónitornum og hún tók mig í stutta skoðun.  Ég átti engan vegin von á að neitt væri að ske og dauðbrá því þegar hún sagði okkur að ég væri komin með 3 í útvíkkun og stuttan legháls.  Ég var greind með meðgöngueitrun vegna próteinsins og blóðþrýstingsins og því var ákveðið að sprenga belginn sama dag.  Viggó fékk að fara heim að ná í spítaladótið (sem var nota bene ekki alveg komið ofan í tösku {#emotions_dlg.wink} ...alltaf sama kæruleysið) en ég var lögð inn rétt fyrir 4. 

Þegar Viggó kom svo aftur þá setti ljósan mig í monitor í smá stund til að sjá hvað væri að gerast og klukkan hálf 6 sprengdi hún belginn.  Eftir það fór ég að finna seiðing með samdráttunum sem lofaði góðu.  Um 8 leitið skoðaði hún mig aftur og útvíkkunin var komin í 4-5 en það hafði hægst aðeins á samdráttunum.  Til að halda ganginum í þessu fékk ég oxitósín drip og þá fór ég að finna fyrir eiginlegum hríðum.  Þær jukust svo smám saman og milli 10 og 11 var mænudeifingin sett upp.  Það gekk vel en þau mældu með mænudeifingunni bæði vegna oxítósisins og svo til að halda blóðþrýstingnum niðri.  Þar sem ég var orðin vel verkjastillt var tækifærið nýtt og drippið aukið töluvert.  Um 12 var ég komin með tæplega 8 í útvíkkun og korteri seinna var ég komin í 10. 

Ljósan sagði mér að bíða eins og ég gæti með að rembast og ég held ég hafi þraukað það til ca hálf 1.  Mér fannst svolítið erfitt að átta mig á hvernig ég átti að rembast, en mænudeyfingin dempar rembingstilfinninguna víst.  Ljósan leiðbeindi mér í gegnum þetta og ég fann taktinn á endanum.  Klukkan 00:50 kom svo litli guttinn í heiminn alveg fullkominn {#emotions_dlg.laughing} og ég fékk hann beint í fangið.  Viggó klippti á naflastrenginn og fylgjan kom svo heil út stuttu seinna.

Það þurfti að sauma mig töluvert og bæði deildarlæknir og skurðlæknir komu til að ganga frá mér.  Ég var svo rosalega stressuð yfir saumaskapnum að þær settu mig á gasið til að geta klárað og þvílíkur léttir það var.  Væri alveg til í að eiga svoleiðis græju heima hehe.

Við fengum svo góðan tíma saman áður en drengurinn var vigtaður og mældur, hann var 3900 grömm eða tæpar 16 merkur og 52 cm, höfðumál 34cm.  Rétt fyrir 4 var ég send niður á sængurkvennagang og Viggó sendur heim.  Fannst það alveg hræðilegt að hann gæti ekki verið hjá okkur restina af nóttinni, en svona er þetta víst.  Við litli kútur dormuðum saman fram á morgun og ég náði kannski klukkutíma svefni þá nótt. 

Daginn eftir var nóg að gera, ömmur og afar komu að sjá guttann og svo bara daglegur erill á ganginum.  Viggó var svo sendur heim um nóttina og við mæðginin náðum að dorma í smástund í kringum miðnætti en svo vildi minn maður bara vaka og vera á brjósti fram undir morgunn.  Þegar hann loksins róaðist og sofnaði, þá byrjaði dagurinn með því að rúmið við hliðina á mér var tekið út, blóðþrýstingurinn tékkaður hjá mér, rúminu trillað aftur inn, 5 farþegaþotur komu inn til lendingar, boðið upp á morgunmat, gert heyrnapróf á guttanum og kona lögð inn í stæðið við hliðina á mér.  Þannig að lítið varð um svefn hjá mér þann morguninn.  Við fórum svo heim á hádegi og ég hef sjaldan verið jafn fegin að komast í mitt eigið. 

Ljósurnar mega samt eiga það að þær voru allar alveg yndislegar og frábært viðmót hjá þeim, agalegt bara að geta ekki fengið sér stofu eða leifa Viggó að vera yfir nóttina til að hjálpa.  Það var víst ekki í boði að fá fjölskylduherbergi í Hreiðrinu eins og margir fá, þar sem ég var með meðgöngueitrun og missti svolítið af blóði. 

Viggó stóð sig eins og hetja í fæðingunni, reddaði mér pizzu áður en allt fór á fullt og studdi mig eins og hann gat í gegnum allt ferlið.  Hálf hissa að hann sé ekki marinn í hendinni eftir allt kreistið frá mér {#emotions_dlg.wink}