Erum stödd í Grindavíkinni góðu núna, búin að vera í mánuð í sælunni og ætlum að vera fram yfir páska :)
Það stóð nú reyndar ekki til að dvölin yrði svona löng en við fórum viku fyrir áætlun því ég ákvað að skella mér með Víðihlíðarskvísum í menningarferð til Vestmannaeyja yfir nótt og var það í fyrsta skipti sem Salvar var í pössun svona lengi, í fyrsta skipti sem við erum aðskilin í meira en 5-6 tíma í rauninni. En það gekk bara svona líka vel og þó hann hafi vaknað einu sinni yfir nóttina þá bara tók amman hann uppí og hann lúrði á milli hennar og Dagbjartar frænku, ekki málið!
Svo er hann búinn að vera á miklu flakki síðan en á meðan ég var í tveggja vikna verknámi í Keflavík eru hinir og þessir búnir að passa hann. Rakel Eva frænka reddaði okkur alveg fyrri vikuna og svo voru það Dagbjört, mamma, amma, Karen Lind og Guddan sem redduðu seinni vikunni, og auðvitað afi Addi líka. Og þetta hefur sumsé bara gengið megaháttar vel.
Það er að koma fram svolítið skap í mínum manni og hann getur reiðst ef eitthvað er sem honum ekki líkar en hann er líka fljótur að gleyma og er venjulega mjög kátur, sértaklega hérna heima með krökkunum. Svo er hann líka farinn að sýna svolítinn glannaskap eins og hann var nú alltaf sallarólegur þessi elska, klifrar núna upp á alla stóla og borð og spígsporar rígmontinn við brúnina J Stakk sér einmitt fram úr sófanum um daginn og fékk stóra kúlu á ennið, fyrsta meiddið og hann vissi ekkert hvernig hann átti að bregðast við, grét svolítð og varð svo reiður við sófann þegar það hætti ekki að vera vont strax.
Alltaf bætist aðeins í orðaforðann þó sumt sé kanski ekki alveg skiljanlegt..
Amma er vissulega uppáhaldsorðið og hann getur röflað það fram og til baka allan daginn, mikill ömmukall :)
Helsti listinn er: mamma, amma, afi, ammi (nammi), abba/dabba/dabö (Dagbjört), sjö (sjáðu), nei, hessi (þessi/þetta), haahessi (hvað er þetta), O-ú (ó-ó), oh ho (hoho), jósi (ljósið), datt, ha, heijuu (heyrðu –þegar hann er að skamma mömmu sína), æja (jæja) og hann er mjög kurteis og notar óspart orðið takk/zagg, og hæ! Obbódi er svo nýtt og við höfum ekki komist að því ennþá hvort það þýðir óbbósí, hobbiti, eða eitthvað allt annað.
Svo hefur hann sagt bók, bíj (bíll) og kisa, bara einu sinni og neitar að segja það aftur. Og svo hermir hann eftir og kann að segja Hapa (Harpa), Ewa (Ella), Anna (Fannar), Emma (Telma),
Man ekki fleiri orð í augnablikinu en þetta er svona það helsta.
Nú eftir páska förum við svo bara að bruna norður og klára skólann, ganga frá íbúðinni og við getum ekki beðið eftir að vera svo bara alkomin fyrir sumarið heim í Grindavíkina en ég klára líklega prófin 13. maí. Stefnan er svo að vinna í Víðihlíðinni í sumar og Salvar ætlar að vera hjá Gauju dagmömmu :)
No comments