Minningar - AKB
- Fyrstu orðin mín voru mamma og pabbi (mamma, babba) en þau voru æfð daglega frá 7,5 mánaða aldri. Á þessum tíma var ég farin að borða alls konar grauta, grænmeti, ávexti, brauð og kjöt af bestu lyst. Þarna var ég farin að klappa saman höndunum og vinka bless og kyssa með því að smella saman vörunum út í loftið. Rútínan hjá mér var orðin svakalega fín en eftir morgunmat settist ég iðulega á koppinn og kúkaði fyrir stoltu mömmu mína og klappaði svo fyrir sjálfri mér þegar ég sá afraksturinn. Eftir það fór ég oftast í pössun til ömmu og afa í Eskiholti í fjóra klukkutíma og það fannst mér mjög gaman. Mamma gat þá unnið á meðan og sótti mig svo upp úr hádeginu og þá fórum við mamma að leika okkur heima í Melhæð. Svo var það hluti af daglegri rútínu hjá okkur að sækja eldri systkini mín í skóla eða á æfingar. Það var bara gaman enda á ég svo frábær systkini sem sjá ekki sólina fyrir mér

- Þegar ég var 8,5 mánaða byrjaði ég að skríða. Annar fóturinn þvældist þó oftast svolítið fyrir mér en ég dró hann þá bara með og nýtti kraftinn í höndunum sem var ógurlegur! Skemmtilegast fannst mér að segja "datt" þegar eitthvað datt í gólfið eða bara þegar ég henti því viljandi í gólfið til að geta sagt "datt". Þegar ég var ósátt við mömmu kallaði ég á pabba og öfugt
Pabbi kenndi mér á þessum tíma að gefa "five" og ég var farin að sýna hvað ég var stór með hendurnar upp í loftið. Ég varð í fyrsta skipti veik þennan febrúarmánuð og þurfti að fá sýklalyf til að losna við kvefið sem virtist engan endi ætla að taka. Amma var mjög dugleg að syngja fyrir mig þegar ég fór til hennar í pössun og þá gaf ég frá mér voða sætt hljóð og söng þannig með henni. Systkinin þrjú héldu líka stundum tónleika fyrir foreldra sína og þá var ég iðulega á hristunni og hummaði með
. Það var virkilega skemmtilegt og eitthvað er nú til af video-upptökum frá slíkum tónleikum.
- Þegar ég var 10 mánaða var ég farin að ganga með og tók fyrstu skrefin frá Ólöfu Maríu til mömmu. Uppáhaldið mitt var að skríða upp allar tröppurnar heima í Melhæðinni. Ef litið var af mér í smá stund var ég komin í næsta stiga og þá stukku systkini mín yfirleitt til og pössuðu upp á að ég dytti ekki aftur fyrir mig. Á þessum tíma var ég orðin virkilega dugleg að leika mér með dótið mitt og fékk að fara út í garð að skoða gróðurinn og prófa trampólínið, það var sko fjör! Ég fékk í fyrsta skipti hita í apríl en það varði bara í einn dag en ég var þó nokkra daga þar á eftir að glíma við magaverki. Framtennurnar spruttu fram þennan mánuðinn með tilheyrandi pirringi og voða gott þegar þær voru loksins komnar niður og ég gat farið að gnísta tönnum eins og eldri systir mín gerði alltaf og gerir enn í svefni!
- Ég skrapp til Spánar með mömmu, ömmu, afa og sytskinum mínum í byrjun júní og þar masteraði ég listina að labba alveg sjálf og váds hvað það var gaman! Ég snarhætti að skríða og kom "labbandi" heim til Íslands eftir tvær vikur á Spáni. Pabbi saknaði okkar alveg svakalega mikið en honum leiddist ekki á meðan því þegar við komum heim var hann búinn að mála húsið að utan takk fyrir!
- Eins árs afmælið var haldið á afmælisdaginn 17. júní en þá héldum við Arnar Guðni sameiginlega afmælisveislu fyrir ættingja og vini. Ég stóð mig mjög vel í veislunni og sýndi öllum voða stolt hvað ég var klár að labba sjálf. Sjöunda tönnin kom þennan júnímánuð en á svipuðum tíma veiktist ég og fékk í fyrsta skipti 40 stiga hita og eyrnabólgu sem var ekki þægilegt! Á þessum tíma var ég orðin mjög duleg að tjá mig alls kyns handabendingum og hljóðum. Vinsælast var að sveifla hendinni og segja "hætt" þegar ég var hætt að borða eða hætt að vilja gera eitthvað. Svipurinn var óborganlegur og fjölskyldan mín átti í mesta basli með að skellihlæja ekki þegar ég var svona svakalega ákvðein á svipinn og sagði "hætt". Mér fannst mjög gaman að skoða bækur á þessum tíma og byrjaði að benda á augun, eyrun o.s.frv.
- Ég byrjaði á ungbarnaleikskólanum Litlu Ásum í september 2012. Það var erfitt fyrst en í byrjun október var ég orðin svakalega sjóuð í þessu og naut þess í botn að leika við krakkana og syngja og dansa. Konurnar á leikskólanum sögðu að ég væri alveg ótrúlega dugleg að borða og voru stundum alveg gáttaðar á magninu sem ég innbyrði. Ég var svolítið mikill veikindapési og fékk oft slæmt kvef sem endaði með sýkingu sem þurfti sýklalyf við.
- Þegar ég var 15 mánaða var ég búin að bæta aðeins í orðaforðann og uppáhaldsorðið mitt var "klukka" og "Diddi" en það orð þýddi bæði "bolti" og "Arnar Guðni" enda drengurinn alltaf með bolta og eðlilega samasem merki þar á milli
Mér fannst frábært þegar einhver nennti að sestjast niður með mér og skoða bækur og benda á myndir og heyra orðin. Ég var ekki lengi að ná tökum á því að mata mig sjálf eftir að ég byrjaði á leikskólanum og sjálfstæðisbaráttan festi sig í sessi sem lýsti sér með því að það var stranglega bannað að mata skvísuna, hún vildi sko gera þetta sjálf.
- Orðaforðinn minn var um það bil svona þegar ég var 17 mánaða: Já, nei, mamma, Óvö (Ólöf) Adna (Arnar) Diddi (þýddi núna pabbi og bolti), meia (meira), nammi, búi (búið), datt, takk, obladi-oblada, obbossí, Gauti, Kata, amma, afi, Anton, klukka, bíbí, hæ, blæ (bæ), hoppa, húfa, úlpa, úti og kríta ásamt ýmsum táknum og hljóðum tengdum þeim. Uppáhaldsiðjan mín var að reyna að klæða mig í og úr fötum/skóm með misjöfnum árangri. Endalaust nennti ég að dúlla mér við þessa iðju og monta mig ef erfiðið bar árangur!
- Þegar ég var 20 mánaða var ég algjör tal-maskína, við fengum skilaboð frá leikskólanum um að hún talaði ROSALEGA MIKIÐ og það fór ekki fram hjá okkur á heimilinu heldur. Hún gat gert sig skiljanlega um allt sem skipti máli og pússlaði saman orðum og myndaði langar setningar án mikillar fyrirhafnar.
- Í apríl 2013 fékk skvísan hlaupabóluna sem gekk frekar hratt og auðveldlega yfir samanborið við eldri skystkinin sem höfðu fengið verri útreið. Veturinn minn á Litlu-Ásum var búinn að vera mikill veikindavetur þannig að ég átti eiginlega inni að fá bara væga hlaupabólu.
- Sumarið 2013 skelltum við okkur til Spánar með Birgittu frænku og Gauta og Kötu, það var yndisleg ferð. Við Birgitta þroskuðumst mikið og okkur fannst mjög gaman á ströndinni, í sundlauginni og í tívolíinu. Stóru systkini mín voru dugleg að kenna okkur á öll leiktækin og lífið á Spáni.
- Þanni 07.09.13 (7-9-13
) ákvað ég sjálf að hætta með bleyju. Hún var eins og ég orðaði það sjálf "mjög óþæginleg" og ég vildi bara frekar nota nærbuxur! Og breytingin gekk eins og í sögu, nánast engin slys en ég hélt samt áfram að sofa með bleyjuna á nóttunni. Þessa sömu viku byrjaði ég í Leikskólanum Hæðarbóli. Aðlögunin gekk bara vel, ég var mjög ósátt í mjög stuttan tíma en svo var bara svo gaman í leikskólanum að ég mátti ekkert vera að því að gráta yfir þessu og fór bara að leika mér eins og stóru krakkarnir. Deildin mín heitir Furusel en það er blönduð deild með krökkum á aldrinum tveggja til fjögurra ára og ég og Steingerður (vinkona mín sem á sama afmælisdag og ég) erum næst yngstar á deildinni.
Skemmtilegar setningar Agnesar Klöru (6 ára):
Mamma: “Sumar fjölskyldur fara í messu kl. 18:00 à aðfangadag”
Eftir nokkra mínútna umhugsun segir Agnes Klara: “en mamma, við erum sumarfjölskylda, við förum t.d. alltaf til Spánar á sumrin. Af hverju förum við ekki í messu?”