Jæja tíminn heldur áfram að líða á ógnarhraða og litli prinsinn okkar eldist, stækkar og þroskast með hverjum deginum. Í gær var hann í fimm mánaða skoðun hjá Þorgerði á ungbarnaverndinni. Henni leist bara mjög vel á litla piltinn enda algjört draumabarn, hann var vigtaður, mældur og sprautaður og tókst þetta allt vel. Hann var orðinn 5825 gr á þyngd og 62 cm á lengd. Hann er reyndar svolítið undir meðaltali en Þorgerður sagði að þar sem hann samsvaraði sér vel þá væri hann bara svona nettur. Hann er alltaf að uppgötva eitthvað nýtt og er sífellt á ferðinni ef hann er lagður niður á gólfið þ.e. hann snýst í hringi en er nú reyndar ekki farinn að velta sér, honum líður allt of vel á bakinu til þess að hann fari i einhverjar svoleiðis æfingar því að honum hundleiðist að liggja á maganum. Næst síðast sundtíminn hjá honum var í dag, hann skemmtir sér stórvel í sundinu og er orðinn duglegur að kafa og hreyfa sig í vatninu.
Gunnar Pálmi er nú á Neskaupstað að keppa í blaki, mikil tilhlökkun var að komast á mótið og fá að keppa með 3 flokk en það er flokkurinn fyrir ofan flokkinn sem hann er í. Íslandsmótið í hans flokki er svo í apríl n.k. hér á Akureyri og þá verður gaman að fara og fylgjast með. Nóg er að gera hjá honum alla vikuna í skóla, æfingum, tónlistarskólanum og svo þurfa náttúrulega vinirnir sinn tíma, en það gengur allt mjög vel hjá honum og hann gefur sér góðan tíma í það sem hann er að gera - vildi nú samt vera laus við miðvikudagana þar sem það eru leiðinlegustu dagarnir í skólanum (engir verklegir tímar). En tíminn líður nú reyndar svo hratt að það verður komið sumar áður en maður veit af og þá verður væntanlega hægt að fara á Vopnafjörð og stoppa þar í nokkra daga. Við fórum að dögunu austur og að venju skemmti Gunnar sér konunglega í góðra vina hópi og var nóg að gera hjá honum frá morgni til kvölds. Hann er reyndar búinn að setja upp plan fyrir fjölskylduna, við eigum að flytja austur, búa á Skálanesgötunni, Hreinn fari í Brekkubæ, Gunnar í skólann, Brói fari að vinna hjá Eyja og ég fari að vinna á olíuborpalli þegar að því kemur.
Brói er nú búinn á bóklega meiraprófsnámskeiðinu svo að nú er bara eftir að taka tíma á vörubíl og trailer, rútu og leigubíl og þá er hann klár í slaginn, en reyndar er hann ekki á leiðinni að skipta um vinnu en alltaf gott að hafa fleiri tromp upp í erminni ef einhverjar breytingar verða. Við hin á heimilinu erum mjög glöð með að námskeiðinu sé lokið svo að við förum nú að hitta hann eitthvað.
Kveðja úr Vestursíðunni
Skrifa athugasemd