Tíminn líður alveg ótrúlega fljótt og margt er að frétta héðan úr Vestursíðunni. Hreinn er orðinn 1 árs og er algjör brosstrákur eins og alltaf. Hann byrjaði hjá Guðbjörgu dagmömmu 21. september og gengur það orðið mjög vel, hann var nú ekki alveg sáttur í byrjun og mátti helst ekki af foreldrunum sjá en nú er þetta farið að ganga eins og í sögu og hann kveður okkur sáttur á morgnana en er alltaf glaður þegar við eða Gunnar Pálmi komum að sækja hann. Hreinn tekur lífinu bara með ró og er ekkert að flýta sér að fara að ferðast um á tveimur jafnfljótum, hann skríður um allt og stendur upp við allt sem á vegi hans verður og gengur með en er ekki enn farinn að sleppa sér eða ganga á milli hluta. Það hefur gengið ágætlega að þyngja hann en hann fær olíu eða smjör út á flestallan mat og borðar mjög vel og skiljum við og dagmamman ekkert í því að hann sé ekki risastór hlunkur miðað við allt sem hann lætur ofaní sig, en það verður gaman að sjá hvað barnalæknirinn segir þegar hann kemur í vigtun til hans í byrjun nóvember.
Gunnar Pálmi er byrjaður í fermingarundirbúningi, en fermingardagurinn verður 10. apríl 2010. Mér finnst reyndar svo stutt síðan hann var á aldri við Hrein en svona gengur þetta víst. Gunnar fer í fermingarfræðslu einu sinni í viku í Glerárkirkju og svo erum við búin að fara í nokkrar messur líka. Hann er alltaf að æfa blakið og er á æfingum þar fimm sinnum í viku og stundar hann þær að kappi enda styttist í blakmót sem verður á Neskaupsstað í byrjun nóvember. Skólinn tekur náttúrulega sinn skerf af deginum og gengur það mjög vel, foreldraviðtöl voru fyrir stuttu og fékk Gunnar mjög góða umsögn hjá kennaranum sínum enda bjóst ég ekki við öðru.
Gamla settið hefur það mjög gott að vanda, fer í vinnu, sveitina og hafa það gott heima með strákunum
Bestu kveðjur úr Vestursíðunni
Kristjana
Jæja gott fólk
Héðan af okkur í Vestursíðunni er allt gott að frétta. Við erum búin að vera mikið á ferðinni í sumar og skoða margt og mikið. Í byrjun júní vorum við um vikutíma á Vopnafirði og skemmtum okkur vel þar, við vorum svo heima í nokkra daga en þrátt fyrir að vera heima var mikið um skreppitúra í sveitina, Gloppu og fleira. Í lok júní fór svo Brói í sumarfrí og byrjuðum við á að samgleðjast ömmu og afa í sveitinni en þau áttu gullbrúðkaupsafmæli þann 26. júní og fórum við í Engimýri og fengum okkur kaffi og fórum svo í Gloppu og þar var grillað og skemmt sér. Mánudaginn eftir lögðum við svo af stað í útilegu, fórum á Blönduós og gistum þar í tjaldvagninum (sem litla mann likaði mjög vel). Við fórum þaðan að skoða Vatnsnesið, fórum í Borgarvirki, skoðuðum Hvítserk og fórum í sund og á selasafn á Hvammstanga. Fórum einnig að skoða Blönduvirkjun en svo lá leiðin á Hérað þar sem við gistum á tjaldstæðinu í Svartaskógi, þaðan fórum við í skoðunarferð í Kárahnjúka og Sænautasel og einnig niður á Seyðisfjörð. Haldið var svo til Vopnafjarðar og verið þar í 2 daga svona rétt til að þurrka tjaldvagninn áður en við færum í Gloppu en þar gistum við svo síðustu 2 næturnar í sumarfríi Bróa. Næstu 2 dögum var svo eytt í afslöppun heima en þá var aftur haldið í Gloppu og fengum við þá afnot af hjólhýsinu þeirra Ásdísar og Jóns Gunnars og fengum við alveg súpergott veður þá helgina. Tók svo við undirbúningur fyrir ættarmót Laugalandsættarinnar sem var 18. júlí í Freyvangi og gekk það mjög vel, Hreinn bræddi alveg fullt af hjörtum og Gunnar Pálmi skemmti sér hið besta með frændsystkinum sínum. Strax að ættarmóti loknu var stefnan sett á Flateyjardalinn og vorum við þar í 3 daga ásamt Heiðu ömmu og Tryggva afa, Margréti Gylfa, Þorgerði Önnu og Helga Marinó. Vopnafjarðardagarnir voru svo teknir með trompi og fékk Gunnar Pálmi að dvelja aðeins lengur á Vopnafirði að þeim loknum. Nú fer að líða að verslunarmannahelginni og ætlum við að skreppa aðeins á dalinn og fara í Gloppu, ætli þetta verði ekki seinustu ferðalög okkar í sumar þar sem stutt er eftir af fríi mömmunnar og hún verður ábyggilega svo útúrkeyrð fyrstu daga vinnunnar að hún gerir lítið annað en að knúsa strákana sína og sofa að vinnudegi loknum.
Bestu kveðjur úr rigningunni á Akureyri
Við erum búin að hafa það mjög gott síðan ég skrifaði hér síðast. Hreinn stækkar og dafnar og er alltaf að uppgötva nýja hluti. Hann er farinn að mjaka sér aðeins áfram á rassinum en finnst nú samt enn best að sitja bara sem fastast og leika sér. Hann bablar orðið heilmikið og vinsælast er mammmammma og babba, sérstaklega þar sem hann fær nú mjög mikla athygli frá foreldrunum fyrir það. Föstudaginn 5. júni brá öll fjölskyldan sér til Vopnafjarðar og var þar um sjómannadagshelgina, Brói fór svo heim á sunnudeginum en við vorum áfram í viku. Föstudaginn 12. júní fundu svo amman og mamman tönn sem var loksins komin upp en hún er í neðri góm.
Gunnar Pálmi er alsáttur með að vera kominn í sumarfrí. Honum gekk vel í skólanum en sumarfríið var langþráð, hann fékk svo að vera áfram á Vopnafirði þótt að við Hreinn færum heim. Hann unir sér vel fyrir austan, á góða vini þar og er á fótboltaæfingum og gerir margt sér til skemmtunar. Helst vildi hann eyða öllu sumarleyfinu þar, en það er nú ekki alveg það sem móðirin vill.
Bestu kveðjur úr Vestursíðunni
Kristjana
Það er nú langt síðan maður hefur skrifað eitthvað hérna inn, litli prinsinn á heimilinu er orðinn 8 mánaða og stækkar sífellt. Hann var í skoðun og sprautu í morgun og gekk það bara nokkuð vel, Þorgerður hjúkrunarfræðingur var ánægð með hvað hann duglegur og alltaf glaður en hann mætti reyndar þyngjast og lengjast meira en hann er enn talsvert undir meðaltali þrátt fyrir að hann sé farinn að borða 4-5 sinnum á dag og fái að drekka 4 sinnum á dag. Skil ekkert í því hvert allur þessi matur fer fyrst að hann stækkar ekki af honum. Hann er sífellt að uppgötva nýja hluti, hann er orðinn mjög duglegur að sitja og snýst í hringi þegar hann situr á gólfinu. Hann vill ekki liggja á maganum og er fljótur að velta sér yfir á bakið ef maður vogar sér að setja hann á magann, hann er aðeins farinn að ýta sér afturá bak þegar hann liggur, en er ekki farinn að sýna neina burði í það að fara að skríða en það kemur nú að því. Hann elskar að vera í vatni og það liggur við að það þurfi að þrífa og þurrka baðherbergið hátt og lágt þegar hann er búinn að vera þar. Við fórum í sveitina um síðustu helgi og ekki leiddist honum það, hann fékk að fara í fjárhúsin og var hann hrifinn af lömbunum og vildi gjarnan fá að taka aðeins í þau. Þar er líka lítill hvolpur, sem heitir Snati og voru þeir hrifnir hvor af öðrum, Hreinn tók fast í hvolpinn og Snati sleikti hann í framan.
Af Gunnari Pálma er líka allt gott að frétta, í byrjun mánaðarins fór hann til pabba síns og var með honum og fjölskyldunni í sumarbústað, ekki þótti honum nú það leiðinlegt sérstaklega þar sem hjólin voru með í för og var hægt að vera að leika sér á þeim alla daga. Gunnari er farið að hlakka talsvert til skólalokana í vor, enda ekki skrítið þar sem frabært veður hefur verið hér en það þarf að sitja yfir heimalærdóm, ritgerðasmíð og prófalestri, en þetta hefur gengið vel hjá honum, hann er búinn með nokkur próf, skila tveimur ritgerðum og svo er prófavika í næstu viku. Síðasti gítartíminn var í lok apríl og fengu þá foreldrar að koma með börnunum og hlusta og var það mjög gaman, en Gunnari fannst ágætt að því væri lokið svo að hann hefði meiri tíma á blakæfingum, en hann hefur misst af hluta af blakæfingu 1x í viku þar sem gítartíminn og blakæfingin skarast. Lokaslúttið í blakinu var svo í gær í Kjarnaskógi þar sem allir hittust spiluðu blak úti og grilluðu svo saman, þar voru einnig veittar viðurkenningar fyrir ástundum og góðan árangur s.l. vetur og fékk Gunnar bikar fyrir mestu framfarirnar, sem var glæsilegt hjá honum.
Nú fer að styttast í það að litli gaurinn okkar verði 6 mánaða gamall, en það er föstudaginn n.k. 20. mars. Í dag fór hann í 6 mánaða skoðun á heilsugæslunni. Þar var hann vigtaður og mældur á alla kanta, hann hefur þyngst sæmilega en er enn undir meðaltali bæði í hæð og þyngd, þrátt fyrir að hann sé nú farinn að borða 3x á dag auk þess sem hann drekkur mömmumjólk eins og honum sé borgað fyrir það. Hann er nú reyndar svolítið matvandur og er ekki alveg sama hvað hann fær að borða en gulrætur, rófur, perur og hafragrautur eru hátt skrifuð hjá honum en við banana og epli líkar honum ekki.
Hann spjallar orðið heilmikið og oft liggur hann og leikur sér og býr til þvílíku hljóðin, sérstaklega finnst honum gaman að búa til hvella og skæra tóna svo að maður hrekkur oft í kút og oft hann sjálfur líka.
Jæja tíminn heldur áfram að líða á ógnarhraða og litli prinsinn okkar eldist, stækkar og þroskast með hverjum deginum. Í gær var hann í fimm mánaða skoðun hjá Þorgerði á ungbarnaverndinni. Henni leist bara mjög vel á litla piltinn enda algjört draumabarn, hann var vigtaður, mældur og sprautaður og tókst þetta allt vel. Hann var orðinn 5825 gr á þyngd og 62 cm á lengd. Hann er reyndar svolítið undir meðaltali en Þorgerður sagði að þar sem hann samsvaraði sér vel þá væri hann bara svona nettur. Hann er alltaf að uppgötva eitthvað nýtt og er sífellt á ferðinni ef hann er lagður niður á gólfið þ.e. hann snýst í hringi en er nú reyndar ekki farinn að velta sér, honum líður allt of vel á bakinu til þess að hann fari i einhverjar svoleiðis æfingar því að honum hundleiðist að liggja á maganum. Næst síðast sundtíminn hjá honum var í dag, hann skemmtir sér stórvel í sundinu og er orðinn duglegur að kafa og hreyfa sig í vatninu.
Gunnar Pálmi er nú á Neskaupstað að keppa í blaki, mikil tilhlökkun var að komast á mótið og fá að keppa með 3 flokk en það er flokkurinn fyrir ofan flokkinn sem hann er í. Íslandsmótið í hans flokki er svo í apríl n.k. hér á Akureyri og þá verður gaman að fara og fylgjast með. Nóg er að gera hjá honum alla vikuna í skóla, æfingum, tónlistarskólanum og svo þurfa náttúrulega vinirnir sinn tíma, en það gengur allt mjög vel hjá honum og hann gefur sér góðan tíma í það sem hann er að gera - vildi nú samt vera laus við miðvikudagana þar sem það eru leiðinlegustu dagarnir í skólanum (engir verklegir tímar). En tíminn líður nú reyndar svo hratt að það verður komið sumar áður en maður veit af og þá verður væntanlega hægt að fara á Vopnafjörð og stoppa þar í nokkra daga. Við fórum að dögunu austur og að venju skemmti Gunnar sér konunglega í góðra vina hópi og var nóg að gera hjá honum frá morgni til kvölds. Hann er reyndar búinn að setja upp plan fyrir fjölskylduna, við eigum að flytja austur, búa á Skálanesgötunni, Hreinn fari í Brekkubæ, Gunnar í skólann, Brói fari að vinna hjá Eyja og ég fari að vinna á olíuborpalli þegar að því kemur.
Brói er nú búinn á bóklega meiraprófsnámskeiðinu svo að nú er bara eftir að taka tíma á vörubíl og trailer, rútu og leigubíl og þá er hann klár í slaginn, en reyndar er hann ekki á leiðinni að skipta um vinnu en alltaf gott að hafa fleiri tromp upp í erminni ef einhverjar breytingar verða. Við hin á heimilinu erum mjög glöð með að námskeiðinu sé lokið svo að við förum nú að hitta hann eitthvað.
Kveðja úr Vestursíðunni
hæ hæ
Ákvað að setja hér inn smá fréttir af okkur. Hér í Vestursíðunni eru allir við hestaheilsu, sem betur fer er flensan eða einhver annar óþverri ekki farinn að láta á sér kræla hér.
Hreinn dafnar vel, það er komin nokkuð góð regla á hann með svefntímann. Hann er yfirleitt að fara að sofa 21:30-22:30 og sefur til c.a. 7 á morgnana, sumar nætur vaknar hann einu sinni til að fá sér að drekka en það er nú reyndar ekki alltaf, ef hann vaknar ekkert á nóttunni er minn maður að sjálfsögðu glorsoltinn þegar hann vaknar og þá er ekki mikil þolinmæði til að bíða eftir að mamman sé tilbúin til að gefa honum að drekka, lætur vel í sér heyra. Hann vakir svo í u.þ.b. 1 1/2 klst og tekur svo 2 tíma blund fyrir hádegi og svo 3-5 klst blund eftir hádegi. Þetta er algjör svefnpurka fyrripart dags en mikill selskapsmaður á kvöldin, enda er miklu skemmtilegra þá, því að þá eru allir komnir heim. Hann skemmtir sér konunglega í sundinu, finnst æðislegt að vera í vatninu en er ekki alltaf hrifinn af því að það sé verið að stinga honum í kaf, en það kemur.
Gunnar Pálmi fór til pabba síns um síðustu helgi, fékk aukafrí á föstudegi í skólanum svo að hann hefði aðeins lengri tíma með fjölskyldunni þar, þetta er svo langt ferðalag að það veitir ekki af því að fá aðeins lengra frí en bara rétt bláhelgina. Hann var að þrífa mótorhjólið sitt á föstudeginum og svo fóru þeir feðgar að leika sér á hjólunum á laugardeginum, Gunnar hafði á orði að hann hefði nú staðið sig merkilega vel á hjólinu miðað við hvað langt var síðan hann fór á það síðast. Hann er orðinn "fjallsjúkur" og felst sú sýki í því að það er helst farið allar helgar í fjallið ýmist á bretti eða skíði, það fer svona eftir því með hverjum hann er að fara hvort er fyrir valinu, en hann er svo heppinn að passa á skíði móðurinnar svo að hann getur notað þau. Svo er hann auðvitað alltaf á blakæfingum 4x í viku og var í dag að byrja aftur í tónlistarskólanum, það er semsagt mjög mikið að gera hjá honum en hann hefur nú samt tíma til að hitta félagana og slappa aðeins af.
Brói er að byrja á meiraprófsnámskeiði í dag og mun það vera næstu 3 vikurnar, alla virka daga 17:30 - 22 og síðan á laugardögum 9-15 svo að hann mun nú ekki sjást mikið hér heima næstu vikurnar. Um síðustu helgi fórum við í sveitina og þá fór hann í að reyna að koma sleðanum sínum í gang en hann fór aldrei í gang síðasta vetur og honum til mikillar gleði rauk sleðinn í gang þegar var búið að strjúka honum aðeins og snurfusa, reyndar höfðu nokkrar mýs á krepputímum aðeins nartað í sætið á sleðanum en á erfiðum tímum verðum við nú að sýna hvert öðru skilning. Brói var nú reyndar ekkert voðalega hrifinn af þessu uppátæki músanna og fjarlægði sleðann svo að þær verða nú að fara að leita sér að öðru fæði.
Af mér er allt gott að frétta, byrja á prjónanámskeiðinu í næstu viku, það verður nú áhugavert að sjá hvernig sú óþolinmóða tekst á við það. Ég er búin að fara mömmumorgna í Glerárkirkju tvo síðustu fimmtudaga og er það mjög gaman, Hreinn er nú reyndar ekki alveg kominn með þroska til að leika við krakkana þar en mér finnst gaman að hitta aðrar mömmur og spjalla við þær. Kveið nú reyndar aðeins fyrir að maður myndi ekki þekkja neinn, en viti menn að það voru nokkrar mömmur sem maður kannaðist við svo að maður var ekki alveg eins og álfur út á hól að farast úr feimni. Okkur mæðginunum finnst reyndar mjög gott að kúra saman á morgnana og þegar aðrir á heimilinu eru farnir í vinnu og skóla þá skríðum við nú stundum saman upp í ból og spjöllum saman og leikum okkur þar til Hreinn lognast útaf og þá fær reyndar mamman sér stundum stuttan kúr líka svona ef ekkert liggur fyrir að gera.
Bestu kveðjur úr Vestursíðunni
Kristjana
Þriðjudaginn síðasta fórum við í fyrsta sundtímann, Tinna og Mano eru að kenna ungbarnasund í Akureyrarlaug og ákváðum við að skella okkur með prinsinn. Sandra Björk (Dóttir Dadda og Hugrúnar) er líka í sundinu og skemmta þau frændsystkinin sér mjög vel í sundinu, hún er alltaf til í að taka í frænda sinn.
Það var gaman að fylgjast með honum í fyrsta skiptið sem hann fór ofaní laugina, honum leið mjög vel og buslaði mikið og tók þátt í öllu sem verið var að gera, nema því að standa í lófanum á okkur, þá var hann með algjöra brauðfætur. Samt vill hann öllum stundum vera að standa hér heima svo að ég skil ekkert í því, en það kemur örugglega seinna. Fyrstu tveir tímarnir voru fremur stuttir, nokkurskonar aðlögun, við sungum helling af lögum, hreyfðum okkur um laugina og svo var hellt yfir höfuðið á þeim en það er undirbúningur fyrir það að þau verði sett í kaf.
Er búin að setja inn nokkrar myndir úr sundinu, set fleiri inn seinna.
Annars er allt gott að frétta hjá okkur, allt að komast í fastar skorður eftir jólahátíðina og sykursukkið. Gunnar Pálmi er alltaf að æfa blak og svo er hann að læra á gítar auk þess sem hann er mikið með félögunum svo að hann sést ekki mikið hér heima. Húsfreyjan ætlar að fara að taka næsta skref í því að verða myndarleg húsmóðir (veitir ekki af) og er búin að skrá sig á byrjendanámskeið í prjóni, nú er bara að sjá til hvernig það gengur . Spurning hvort heimilissmeðlimir verði í framtíðinni skikkaðir til að ganga í flíkum eftir húsmóðirina eða hvort að þetta lognast út af hjá henni.
Jæja nú eru jólin langt komin og við komin á Vopnafjörð. Jólin eru búin að vera yndisleg hjá okkur. Á þorláksmessu fórum við í sveitina, það var nú reyndar þannig að það var jafnvel fyrirsjáanlegt að það þyrfti að nota báða bílana til að ferja allt það dót og allar jólagjafirnar sem við vorum með en það hafðist að lokum að pakka þessu í einn bíl og það sannaðist þarna að þröngt mega sáttir sitja. Við vorum svo í sveitinni á aðfangadag, jóladag og annan í jólum í góðu yfirlæti hjá Margréti og Hreini. Hreinn yngri skemmti sér konunglega og hló og spjallaði, feginn því að hafa svona marga sem voru að stússast í kringum hann. Hann fékk nú ekki að smakka á jólasteikinni, jólaísnum né jólakökunum en gerði sig bara ánægðan með sinn hefðbundna mat a´La mömmumjólk. Það var ekki spurning um hver hefði vinninginn í pakkaeign þessi jólin en það var yngsti fjölskyldumeðlimurinn en reyndar slagaði Gunnar hátt í Hrein í pakkafjölda en þessi jólin var Gunnar hjá pabba sínum og fjölskyldu í Vestmannaeyjum. Hreinn skyldi nú lítið í þessum látum, hávaða og ljósum í kringum sig og svaf mest allann tímann sem foreldrarnir voru að borða og opna pakkana hans, hann rétt vakti svo að hann gæti tekið á móti fyrsta pakkanum, sem var skrautlegur að sjá en skilningur hans á því hvað hann ætti að gera við hann var eitthvað frekar lítill svo að foreldrarnir tóku af skarið og opnuðu þá alla. Það verður nú væntanlega eitthvað meira fjör í pakkaopnun á næstu jólum. Hann fékk mikið af fötum, leikföngum og öðrum góðum hlutum og þökkum við öllum kærlega fyrir.
Jóladagur leið í ró og spekt í rokinu í sveitinni, vindstyrkurinn var það mikill að það var varla hægt að setja litla jólastrákinn út í vagn að sofa, gengið var með hann hringinn í kringum húsið í leit að skjóli en að lokum var bara komið inn og sofið þar.
Á annan í jólum var heljarmikið fjölskylduboð í sveitinni en þá komu allir afkomendur Hreins og Margrétar saman á Auðnum, það var drekkhlaðið borð af veitingum og allir fengu heitt kakó og skemmtu sér saman. Þarna voru foreldrar, ömmu og afar, börn og barnabörn og langömmubörn eitthvað um 70 manns svo að þá var sko kátt í höllinni, setið var við hvert borð veitinganan notið og spjallað og leikið saman. Auk þess sem yngstu meðlimir fjölskyldunnar voru myndaðir í gríð og erg. Að jólaboðinu loknu héldum við svo heim á leið með bílinn drekkhlaðinn af pökkum og öðru dóti sem fygir svona ferðalögum, hluti af farangrinum var tekinn inn heima en annað var skilið eftir í bílnum því að stefnan var sett á Vopnafjörð morguninn eftir. Þetta er náttúrulega fólkið sem aldrei er heima hjá sér.
Á laugardagsmorgninum var svo lagt af stað á Vopnafjörð og keyrðum við þangað í blíðu veðri og erum búin að hafa það gott í vellystingum og heimsóknum þessa dagana. Og Hreinn er búinn að njóta þess að hafa nóg af ömmum og öfum og móðursystkinum sem snúast í kringum hann.
Stefni á að setja inn jólamyndirnar á morgun
En hafið það sem allra best um jólin og gangið hægt um gleðinnar dyr um áramótin
Litli prinsinn okkar var skírður í Glerárkirkju laugardaginn 22. nóvember. Séra Arnaldur Bárðarson skírði drenginn og hlaut hann nafnið Hreinn Heiðmann og er því alnafni föðurafa síns, föðurfólkinu kom þessi nafngift ekki mikið á óvart enda var um að gera að yngja Hrein Heiðmann upp. Guðfeðgin voru Ásta Júlía Aðalsteinsdóttir sem er bróðurdóttir Jósavins og Baldvin Eyjólfsson sem er bróðir Kristjönu. Brói hélt á litla syninum við skírnina og Gunnar Pálmi tók við kertinu hjá prestinum. Eftir athöfnina var smá veisla í safnaðarheimilinu þar sem boðið var upp á kökur og kaffi.
Síðar um kvöldið fóru svo foreldrarnir og Gunnar Pálmi á jólahlaðborð á KEA en Birna amma bauð okkur út að borða í tilefni af afmæli sínu. Elsku Birna til hamingju með afmælið.