Hreinn Heiðmann
 

8 mánađa gaur

Það er nú langt síðan maður hefur skrifað eitthvað hérna inn, litli prinsinn á heimilinu er orðinn 8 mánaða og stækkar sífellt.  Hann var í skoðun og sprautu í morgun og gekk það bara nokkuð vel, Þorgerður hjúkrunarfræðingur var ánægð með hvað hann duglegur og alltaf glaður en hann mætti reyndar þyngjast og lengjast meira en hann er enn talsvert undir meðaltali þrátt fyrir að hann sé farinn að borða 4-5 sinnum á dag og fái að drekka 4 sinnum á dag.  Skil ekkert í því hvert allur þessi matur fer fyrst að hann stækkar ekki af honum.  Hann er sífellt að uppgötva nýja hluti, hann er orðinn mjög duglegur að sitja og snýst í hringi þegar hann situr á gólfinu.  Hann vill ekki liggja á maganum og er fljótur að velta sér yfir á bakið ef maður vogar sér að setja hann á magann, hann er aðeins farinn að ýta sér afturá bak þegar hann liggur, en er ekki farinn að sýna neina burði í það að fara að skríða en það kemur nú að því.  Hann elskar að vera í vatni og það liggur við að það þurfi að þrífa og þurrka baðherbergið hátt og lágt þegar hann er búinn að vera þar.  Við fórum í sveitina um síðustu helgi og ekki leiddist honum það, hann fékk að fara í fjárhúsin og var hann hrifinn af lömbunum og vildi gjarnan fá að taka aðeins í þau.  Þar er líka lítill hvolpur, sem heitir Snati og voru þeir hrifnir hvor af öðrum, Hreinn tók fast í hvolpinn og Snati sleikti hann í framan.

 

Af Gunnari Pálma er líka allt gott að frétta, í byrjun mánaðarins fór hann til pabba síns og var með honum og fjölskyldunni í sumarbústað, ekki þótti honum nú það leiðinlegt sérstaklega þar sem hjólin voru með í för og var hægt að vera að leika sér á þeim alla daga.   Gunnari er farið að hlakka talsvert til skólalokana í vor, enda ekki skrítið þar sem frabært veður hefur verið hér en það þarf að sitja yfir heimalærdóm, ritgerðasmíð og prófalestri, en þetta hefur gengið vel hjá honum, hann er búinn með nokkur próf, skila tveimur ritgerðum og svo er prófavika í næstu viku.  Síðasti gítartíminn var í lok apríl og fengu þá foreldrar að koma með börnunum og hlusta og var það mjög gaman, en Gunnari fannst ágætt að því væri lokið svo að hann hefði meiri tíma á blakæfingum, en hann hefur misst af hluta af blakæfingu 1x í viku þar sem gítartíminn og blakæfingin skarast.  Lokaslúttið í blakinu var svo í gær í Kjarnaskógi þar sem allir hittust spiluðu blak úti og grilluðu svo saman, þar voru einnig veittar viðurkenningar fyrir ástundum og góðan árangur s.l. vetur og fékk Gunnar bikar fyrir mestu framfarirnar, sem var glæsilegt hjá honum.

20. May 2009 - 10:18



Athugasemdir

Skrifa athugasemd


Nafn


Texti