Hreinn Heiðmann
 

Sumarið 2009

Jæja gott fólk

Héðan af okkur í Vestursíðunni er allt gott að frétta.  Við erum búin að vera mikið á ferðinni í sumar og skoða margt og mikið.  Í byrjun júní vorum við um vikutíma á Vopnafirði og skemmtum okkur vel þar, við vorum svo heima í nokkra daga en þrátt fyrir að vera heima var mikið um skreppitúra í sveitina, Gloppu og fleira.  Í lok júní fór svo Brói í sumarfrí og byrjuðum við á að samgleðjast ömmu og afa í sveitinni en þau áttu gullbrúðkaupsafmæli þann 26. júní og fórum við í Engimýri og fengum okkur kaffi og fórum svo í Gloppu og þar var grillað og skemmt sér.  Mánudaginn eftir lögðum við svo af stað í útilegu, fórum á Blönduós og gistum þar í tjaldvagninum (sem litla mann likaði mjög vel).  Við fórum þaðan að skoða Vatnsnesið, fórum í Borgarvirki, skoðuðum Hvítserk og fórum í sund og á selasafn á Hvammstanga.  Fórum einnig að skoða Blönduvirkjun en svo lá leiðin á Hérað þar sem við gistum á tjaldstæðinu í Svartaskógi, þaðan fórum við í skoðunarferð í Kárahnjúka og Sænautasel og einnig niður á Seyðisfjörð.  Haldið var svo til Vopnafjarðar og verið þar í 2 daga svona rétt til að þurrka tjaldvagninn áður en við færum í Gloppu en þar gistum við svo síðustu 2 næturnar í sumarfríi Bróa.  Næstu 2 dögum var svo eytt í afslöppun heima en þá var aftur haldið í Gloppu og fengum við þá afnot af hjólhýsinu þeirra Ásdísar og Jóns Gunnars og fengum við alveg súpergott veður þá helgina.  Tók svo við undirbúningur fyrir ættarmót Laugalandsættarinnar sem var 18. júlí í Freyvangi og gekk það mjög vel, Hreinn bræddi alveg fullt af hjörtum og Gunnar Pálmi skemmti sér hið besta með frændsystkinum sínum.  Strax að ættarmóti loknu var stefnan sett á Flateyjardalinn og vorum við þar í 3 daga ásamt Heiðu ömmu og Tryggva afa, Margréti Gylfa, Þorgerði Önnu og Helga Marinó.  Vopnafjarðardagarnir voru svo teknir með trompi og fékk Gunnar Pálmi að dvelja aðeins lengur á Vopnafirði að þeim loknum.  Nú fer að líða að verslunarmannahelginni og ætlum við að skreppa aðeins á dalinn og fara í Gloppu, ætli þetta verði ekki seinustu ferðalög okkar í sumar þar sem stutt er eftir af fríi mömmunnar og hún verður ábyggilega svo útúrkeyrð fyrstu daga vinnunnar að hún gerir lítið annað en að knúsa strákana sína og sofa að vinnudegi loknum.

Bestu kveðjur úr rigningunni á Akureyri

30. July 2009 - 22:11



Athugasemdir

Skrifa athugasemd


Nafn


Texti