Hreinn Heiðmann
 

Flottu strákarnir

Tíminn líður alveg ótrúlega fljótt og margt er að frétta héðan úr Vestursíðunni.  Hreinn er orðinn 1 árs og er algjör brosstrákur eins og alltaf.  Hann byrjaði hjá Guðbjörgu dagmömmu 21. september og gengur það orðið mjög vel, hann var nú ekki alveg sáttur í byrjun og mátti helst ekki af foreldrunum sjá en nú er þetta farið að ganga eins og í sögu og hann kveður okkur sáttur á morgnana en er alltaf glaður þegar við eða Gunnar Pálmi komum að sækja hann.  Hreinn tekur lífinu bara með ró og er ekkert að flýta sér að fara að ferðast um á tveimur jafnfljótum, hann skríður um allt og stendur upp við allt sem á vegi hans verður og gengur með en er ekki enn farinn að sleppa sér eða ganga á milli hluta. Það hefur gengið ágætlega að þyngja hann en hann fær olíu eða smjör út á flestallan mat og borðar mjög vel og skiljum við og dagmamman ekkert í því að hann sé ekki risastór hlunkur miðað við allt sem hann lætur ofaní sig, en það verður gaman að sjá hvað barnalæknirinn segir þegar hann kemur í vigtun til hans í byrjun nóvember.

Gunnar Pálmi er byrjaður í fermingarundirbúningi, en fermingardagurinn verður 10. apríl 2010.  Mér finnst reyndar svo stutt síðan hann var á aldri við Hrein en svona gengur þetta víst.  Gunnar fer í fermingarfræðslu einu sinni í viku í Glerárkirkju og svo erum við búin að fara í nokkrar messur líka.  Hann er alltaf að æfa blakið og er á æfingum þar fimm sinnum í viku og stundar hann þær að kappi enda styttist í blakmót sem verður á Neskaupsstað í byrjun nóvember.  Skólinn tekur náttúrulega sinn skerf af deginum og gengur það mjög vel, foreldraviðtöl voru fyrir stuttu og fékk Gunnar mjög góða umsögn hjá kennaranum sínum enda bjóst ég ekki við öðru.

Gamla settið hefur það mjög gott að vanda, fer í vinnu, sveitina og hafa það gott heima með strákunum

Bestu kveðjur úr Vestursíðunni

Kristjana

18. October 2009 - 23:09



Athugasemdir

Skrifa athugasemd


Nafn


Texti