Það var nú lítið þennan fimmtudag sem gaf vísbendingu um að sú stutta væri að koma í heiminn innan sólarhrings. Ég byrjaði daginn í morgunkaffi hjá Guðrúnu þar sem ég sat í góðu yfirlæti til kl. að verða 15. Kvaddi með þeim orðum að það væru líkast til einhverjir dagar í þetta. Enda var settur dagur svosem ekki fyrr en 1. febrúar. Snattaðist aðeins eftir það, kíkti niðrí banka og var svo handviss um að ekkert væri að gerast að ég mælti mér mót í hádegisverð daginn eftir. Sótti Egil kl. 16:50 og við skruppum í Húsgagnahöllina, Intersport og fengum okkur svo kaffi hjá Bakarameistaranum. Kom heim kl. 18 og meldaði mig í bókaklúbb kl. 20 enda ekkert betra að gera hélt ég. Þar til ég fór á klósettið og uppgötvaði að slímtappinn svokallaði væri farinn. Elli hafði farið á stjórnarfund í Borgarnesi og leist nú bara mátulega vel á sms-ið sem ég sendi honum þess efnis að vera stand-by. Það væri þó ólíklegt að nokkuð gerðist næstu klukkutímana þar sem ég væri enn verkjalaus. Hringdi samt til öryggis á Skagann en fékk þær upplýsingar að vera róleg þar til verkir byrjuðu. Tók samt, að tillögu stressaðs Ella, til allt dótið sem þurfti. Bara svona til að vera nú við öllu búin.
Við Egill fengum okkur svo að borða og horfðum aðeins á sjónvarpið. Verkir gerðu aðeins vart við rétt fyrir 19 og ég hélt kannski að eitthvað væri að gerast. Jú gott ef ekki. 10 mín á milli – VEI! En það var skammlifuð stemning, allt dottið niður um 19:45 og ég sofnaði bara inni í rúmi þar til Elli kom heim um 20:45. Smá sjónvarpsgláp og tölvufikt og svo inn í rúm kl. 23. Þetta gerist ekkert í nótt.
23:10 – Var þetta verkur? Gott ef ekki
23:17 – Annar? Best að skrifa þetta hjá sér
23:25 – Hmm þriðji verkurinn á innan við klukkutíma. Er það ekki eitthvað svona móment?
23:37 – Lengist á milli. Æi ætli þetta sé ekki bara að detta niður aftur. Best að verða ekki of spennt yfir þessu
23:45 – WOW! HVAÐ var þetta? Spark? Eða var teygjan í nærbuxunum mínum kannski bara að slitna?
23:46 – Nei þetta var belgurinn að springa. Water everywhere! HJÁLP! Hvað gerir maður þá?
23:47 – Hringdi á Skagann. Þuríður hjúkrunarfræðingur hvatti mig til að koma uppeftir
23:55 – Tengdó viðbragðssnögg og eru komin til að passa Egil sem er auðvitað steinsofandi og missti af hasarnum.
00:00 – Lögð af stað á Skagann. Hríðar með 5 mín millibili og fara harðnandi þó þær geti seint talist mjög harðar.
00:22 – Komin í Kollafjörðinn. SJITT uppgötva, þrátt fyrir skipulag á óreiðunni, að ég gleymdi mæðraskránni minni heima. Segi Ella að snúa við en hann var nú ekki hrifinn af þeirri hugmynd „er þetta eitthvað sem þú verður að hafa?“ – uuuuuh JÁ! Hringjum í tengdapabba sem keyrir á móti okkur með skýrsluna.
01:00 – Mætt á Skagann. Þar tók á móti okkur Erla ljósmóðir. Yndislega ljúf kona með rólega og góða nærveru. Stóísk ró inni á fæðingarstofunni þrátt fyrir harðnandi verki. Hún setti mig í monitor og hjartslátturinn í krílinu var sterkur og góður og hríðarnar reglulegar. Elli var standby með punktanuddið sem hún kenndi honum og sjálf nuddaði hún á mér iljarnar. Ofsa róandi og notalegt.
Kl. 01:20 athugaði Erla svo útvíkkun sem þá var 2-3cm. Ég fór þá á fætur og hengdi mig á róluna góðu og dinglaði mér þar með glaðloftið og Ella mér til halds og trausts. Ljósmóðirin nuddaði á mér mjóbakið sem hjálpaði líka heilmikið þegar verkirnir fóru að ágerast og lengjast. Um klukkustund síðar var mér orðið mjög illt og við ákváðum að ég leggðist á bekkinn og þá var útvíkkun langt komin eða á milli 8 og 9cm. Oooh mátti ekki rembast strax. Hélt í mér í 20 mín í viðbót en kl. 02:40 mátti ég loksins byrja að ýta af krafti. Það tók fljótt af og 13 mín seinna eða 02:53 var hún fædd. Hún sat örlítið föst og naflastrengurinnn var vafinn utan um herðarnar á henni. Vegna þess hvað þetta gerðist allt hratt (innan við 3½ klst frá fyrstu hríðum) var hún helblá og líflaus þegar hún kom í heiminn. Þetta er víst eðlilegt en að sjá hana liggja við fætur mér svona líflausa voru án ef verstu 15 sekúndur í lífi okkar. Snör viðbrögð læknisins og ljósmóðurinnar voru aðdáunarverð og hún var fljótlega farin að öskra á lækninn í mótmælaskyni. Fallegri hljóð hafa aldrei heyrst J. Við fengum hana svo í fangið og Elli fékk að „snyrta“ naflastrenginn en Erla ljósmóðir hafði orðið að klippa á hann strax til að hægt væri að koma lillunni yfir á skoðunarborðið.
Við fengum hana svo í fangið, helbláa og þakta fósturfitu en okkur fannst hún auðvitað fullkomin og fallegasta stelpan í öllum heiminum.
Já svona var sagan af því þegar Ragnheiður Gróa Elvarsdóttir kom í heiminn.