Litla ljónið og vogin
 

Fæðingarsaga Báru Ránar

 

Eftir þó nokkrar falskar viðvaranir frá 39. viku var ég nánast orðin viss um að litla daman myndi ekki láta sjá sig fyrr en henni yrði hreinlega ýtt út með valdi á 42. viku.  Ég fór því ekkert alltof vongóð í skoðun til ljósu komin 8 daga fram yfir og lét hreyfa aðeins við belgnum.  Ég fann engan mun á mér á eftir og beið því bara róleg eftir símtali frá Lansanum til að fá tíma í gangsetningu. 

Eftir hádegi fórum við hjónaleysin með Vopna í Ævintýragarðinn þar sem þeir feðgar léku sér í hoppukastala, boltalandi og á trampólíni á meðan ég kjagaði á eftir þeim með myndavélina.  Drengurinn skemmti sér alveg stórvel og var ekkert smá sáttur við foreldrana að dröslast í þetta, og það í vonskuveðri.  Þegar við komum heim lagðist ég aðeins fyrir í sófanum og ætlaði að safna smá orku fyrir kvöldmatinn.  Planið var að gera eðalpottrétt úr sunnudagssteikinni og hafa það svo bara kósí.  Klukkan 5 fékk ég svo smá verk, samdrátt og grínast svona í Vopna að hann þyrfti nú kannski bara að kíkja til ömmu og afa um kvöldið ef litla systir væri að fara að láta sjá sig.  Hélt samt alveg eins að þetta væri nú bara af því að drengurinn var að príla og brölta á mér í sófanum. 

En viti menn, verkirnir og samdrættirnir héldu áfram að koma og ég ákvað að vera ekkert að standa í eldamennsku í þessu, þannig að Viggó var sendur eftir pizzu rétt fyrir 7.  Um 7 leitið hringdi ég í Hreiðrið en þá voru ca 7 mínútur á milli hjá mér og samdrættirnir orðnir aðeins kröftugri.  Sú sem ég tala við sagði að það væri nú best að vera sem lengst heima, það væru enn 7 mínútur á milli en ég yrði að finna það svolítið sjálf hvenær ég vildi koma þar sem gangurinn á þessu væri nú misjafn milli kvenna.  Ég væri að sjálfsögðu velkomin að koma núna en gæti þá allt eins átt von á að vera send heim aftur.  Um 8 leitið var ég orðin viss um að þetta væri ekki bara stríðni í stelpunni og að hún væri á leiðinni þar sem verkirnir voru orðnir að alvöru verkjum en samt alveg viðráðanlegir.  Ég hringdi þá í Langagerðið til að athuga hvort Vopni mætti ekki bara kíkja til mömmu og pabba þá strax þannig að við þyrftum ekki að vera að ræsa hann seinna um kvöldið þegar við færum niður eftir á spítalann.  Sá fyrir mér að við myndum fara niður á deild um 10 leitið kannski og að daman kæmi í heiminn einhverntíman um nóttina.  Viggó og Vopni fóru af stað um hálf 9 og ég hélt nú að ég yrði í lagi þann tíma sem það tæki að skutla drengnum.  Klukkan 9 voru verkirnir orðnir það slæmir og ca 5 mínútur á milli að ég ákvað að þetta væri nú ekki mönnum bjóðandi og ég skyldi biðja um mænudeyfingu í stað þess að standa í þessu alla nóttina.  Viggó hringdi í mig á leiðinni til baka og sagðist ætla að koma við og ná í samlokur og drykki til að taka með þannig að við þyrftum ekki að standa í því á leiðinni niðureftir.  Klukkan hálf 10 hringdi ég í hann til að athuga hvar hann væri en sem betur fer var hann bara að leggja fyrir utan.  Hefði hann verið lengra frá þá var næsta símtal í 112 til að fá sjúkrabíl, þar sem ég komst ekki úr sófanum án þess að henda mér í gólfið vegna verkja.  Viggó kom inn, hringdi niður á fæðingardeild til að láta vita að við værum að koma og náði að setja boltann og töskuna út í bíl. 

Það tók mig 4 hríðar að komast í bílinn (kannski 30 metrar frá sófanum og þangað) þannig að ég komst svona 5 skref á milli hríða, en í þeim varð ég að henda mér á fjórar fætur og anda og burra og hvað það var meira sem ég hló svo að í jóganu á sínum tíma.  Það var ekki fræðilegur möguleiki fyrir mig að sitja í bílnum, heldur var ég öfug í framsætinu með aðra löppina á gólfinu, hina í sætinu og höfuðið á milli framsætanna.  Viggó tók tímann á milli hjá mér í bílnum og sagði að það hefðu verið um 2 mínútur á milli.  Við vorum komin fyrir utan fæðingardeildina klukkan 10, Viggó stökk út, dinglaði og fékk ljósurnar til að koma niður með hjólastól fyrir mig.  Það var eins með stólinn og bílinn, ég hékk öfug í stólnum öll í keng, pústandi og burrandi eins og ég veit ekki hvað.  Um leið og Viggó sá á hvaða stofu ég var sett hljóp hann út í bíl að ná í dótið, boltann og töskuna.  Á meðan náði ég ekki að komast úr stólnum í rúmið án þess að henda mér niður í gólfið í gegnum eina hríð á milli.  Þegar ég komst í rúmið gátu þær skoðað stöðuna hjá mér og ljósmóðurneminn sagði að það væri ekki tími í deyfingu þar sem það væri bara hálfur eftir í útvíkkun hjá mér en bað ljósmóðurina um að tékka líka til að vera alveg viss.  Þegar hún skoðaði mig þá fór vatnið um leið og ég var komin upp í 10.  Þegar Viggó kom loksins til baka með dótið var ég byrjuð að rembast, en ég rétt sá glitta í hann áður en hann rauk aftur út (hann hafði gleymt skýrslunni í bílnum).  Þegar ljósmóðirin sá að hann hafði farið aftur hljóp hún á eftir honum og rétt náði að kalla í hann í þann mund sem lyftudyrnar lokuðust hjá honum.   Viggó rétt náði síðustu tveimur rembingunum hjá mér og daman skaust í heiminn 9 mínútur yfir 10. 

Litla yndið ströglaði aðeins við að anda þegar hún kom út og var lengi að fá eðlilegan lit á lappirnar þannig að það var kallað á barnalækni sem svo fór með hana á vökudeild.  Þar var sogað upp úr henni og henni gefið súrefni.  Hún varð líka heit útaf hitakassanum en um leið og hitinn lækkaði var hún útskrifuð af vöku og við fengum að fara í foreldraherbergi sem tilheyrði þeirri deild þar sem allt var fullt í Hreiðrinu.  Þar vorum við þrjú saman yfir fyrstu nóttina, höfðum 2 rúm, vöggu og sér klósett með sturtu.  Þvílíkur munur frá því síðast að geta verið öll saman og með sér herbergi.  Við vorum svo útskrifuð morguninn eftir og komin heim rétt upp úr hádegi.