Ingó, Erna og Litli-Úlfur
 

Fósturþroski

Tekið af ljósmóðir.is

Vika 1

Það er ekki mikið að gerast núna.  Í lok þessarar viku klárast síðustu blæðingarnar í bili!  Þegar talað er um meðgöngulengd í vikum er nefnilega talið frá fyrsta degi síðustu blæðinga. 

Fyrir tilstilli hormóna frá heiladingli þroskast eggbú.  Eggjastokkarnir framleiða síðan hormónið estrógen í sífellt auknu mæli næstu daga.  Fyrir tilstilli estrógens þykknar legslíman í leginu og verður tilbúin að taka við frjóvguðu eggi.  Eggið er ótrúlega smátt, aðeins 1/10 úr mm í þvermál.

 

Vika 2

Í lok þessarar viku verður egglos!  Egg mánaðarins er losað úr öðrum eggjastokknum og ferðast niður eftir eggjaleiðaranum.  Frjóvgun getur orðið ef sæði á greiða leið í leggöngin í kringum egglosið. 

Vika 3

Eggið er á leið niður eggjaleiðarann í rólegheitum þegar sæði sem verður á vegi þess syndir inn í eggið og þau verða að einni frumu.  Sú fruma skiptir sér í tvær og þær skipta sér í fjórar og svo koll af kolli.  Þetta fjórvgaða egg eða fósturvísir tekur sér u.þ.b. 4 daga til að ferðast niður í legið.  Nokkrum dögum seinna tekur það sér svo bólfestu í legslímunni.   Nú er fósturvísirinn u.þ.b. 200 frumur.  Innri hlutinn er fósturvísirinn sjálfur en ytri hlutinn er það sem verður að fylgjunni sem næra mun barnið og vatnsbelgnum sem mun innihalda hlýtt og notalegt legvatn sem barnið mun fljóta í.

Fósturvísirinn skýtur rótum í legslímunni og lagður er grunnur að því kerfi sem þróast í fylgju.

Vika 4

Fósturvísirinn hefur tekið sér bólfestu í slímhimnu legsins og stækkar með hverjum degi sem líður en er þó enn það smár að hann myndi ekki sjást með berum augum. Eggjastokkarnir framleiða nú mikið af hormóninu Prógestron sem styrkir enn frekar slímhimnu legsins.  Fósturvísirinn fær næringu úr æð í slímhimnunni og utan um hann byrjar fylgjan nú að myndast.  Það vottar fyrir þarmagöngum, lungum og taugakerfi. Jafnframt leggja vissar frumur drög að myndun húðar, vöðva og æða.  Kyn barnsins, háralitur, augnlitur og fleiri erfðafræðilegir þættir voru allir ákveðnir í upphafi og verður ekki breytt.

Vika 5

Tíðablæðingarnar hafa ekki byrjað og þú ert farin að átta þig á að þú ert barnshafandi. Oft finna konur nú fyrir spennu í brjóstunum og þurfa að pissa oftar. 

Fósturvísirinn er nú orðinn það stór að hann væri sjáanlegur með berum augum. Hryggsúlan er að myndast og heilinn í tvennu lagi. Hjarta og æðar eru rétt að byrja að myndast svo fósturvísirinn hefur ekki sína eigin blóðrás ennþá. 

Svokallað æðabelgskögur þróast smám saman í fylgjuna, hið stóra og merkilega líffæri sem sér um að færa barninu súrefni og næringu og flytja úrgangsefni og koltvísýring frá barninu.  Naflastrengurinn tengir saman barn og fylgju og er flutningsleið fyrir næringu og úrgangsefni.  Í naflastrengnum er ein bláæð og tvær slagæðar.

Ef þú hefur ekki nú þegar fundið fyrir ógleði gætir þú byrjað að finna fyrir því núna.  Sumar konur finna þó aldrei fyrir neinni ógleði.  Algengt er að ógleðin  sé á morgnana en getur þó verið hvenær dagsins sem er. 

Nú sést að fósturvísirinn er með búk og höfuð og jafnvel sést aðeins votta fyrir smá bungum sem síðar verða handleggir. Í miðlagi fósturvísirins er vísir að meltingakerfinu, lungum og þvagblöðru.  Utan um þetta lag er annað lag sem er vísir að vöðvum, beinum, hjarta, nýrum og kynfærum.  Þessu lagi er svo pakkað inn í annað lag sem verður að húð, taugakerfi, augum og eyrum.   Óþroskað hjartað byrjar að slá og dæla blóði um fósturvísirinn og æðabelgskögrið. Fósturvísirinn er nú um 5 mm að stærð mælt frá höfði að rófubeini.

Vika 7

Brjóstin gætu hafa stækkað og eru jafnvel viðkvæmari en áður og litlu bólurnar á geirvörtunum gætu nú verið orðnar greinilegar.  Hafir þú fundið fyrir ógleði er líklegt að hún sé enn til staðar.  Það er líklegt að þú þurfir að pissa oftar.  Þér gæti fundist matur bragðast öðruvísi og lykt sem þér hefur venjulega líkað við gæti þér þótt vond.

Höfuð fósturvísisins er að verða manneskjulegra í laginu.  Sjá má smá bungur á búknum sem munu verða að fótum.  Hjartað er byrjað að vinna þó að lungun séu rétt að byrja að mótast.  Fósturnýru byrja að þroskast og vinna en endanleg nýru koma seinna. Æðabelgskögrið teygjir anga sína enn lengra inn í legið.  Fósturvísirinn er nú á stærð við ólívu eða kaffibaun.

Vika 8

Það er eðlilegt að þú þurfir enn að pissa oft því legið sem er að stækka þrýstir meira og meira á þvagblöðruna.   Fylgjan er enn að þróast fyrir tilstilli hormóna og því er mjög mikil hormónaframleiðsla í gangi.  Útferð frá leggögnunum gæti hafa aukist eitthvað og þú gætir fundið fyrir hægðatregðu. 

Nú lítur fósturvísirinn út líkt og rækja, samanhnipraður með haus og hala.  Hann er mjög lítill ennþá en samt u.þ.b. milljón sinnum stærri en hið frjóvgaða egg sem lagði af stað niður í legið fyrir 6 vikum.  Hægt er sjá vísir að eyrum og litlu hendurnar hafa nokkur konar sundfit.

Vika 9

Það sést væntanlega ekki á þér ennþá þó að fósturvísirinn stækki ört. Gættu þó að því að eftir því sem legið stækkar þá breytist þyngdarpunktur þinn og því er þér hættara við að detta.  Ekki er óalgengt að konur séu afhuga kynlífi á meðgöngutímanum en fóstrinu er engin hætta búin þó að þið maki þinn hafið samfarir. Það gæti blætt úr tannholdinu og þér er hættara við blóðnösum.

Augnlok sjást á fósturvísinum og það teygist á honum. Nú hefur hann náð 2 sm lengd og vegur álíka mikið og vínber.  Innri kynfæri eru byrjuð að þroskast en það er ekki hægt að sjá hvort kynið er ennþá. Fingur og tær eru farin að líkjast höndum og fótum.  Í ómskoðun væri hægt að sjá að fósturvísirinn er byrjaður að hreyfa sig um í leginu.

Vika 10

Þú gætir þurft að borða meira því það er mikið að gerast í líkama þínum.  Hugsaðu um hollustuna!  Legið er nú á stærð við appelsínu.

Nú hættum við að tala fósturvísi og tölum um fóstur.  Mjög fá líffæri eru byrjuð að starfa en þau eru komin á sinn stað.  Nasir og táragöng eru tilbúin.  Höfuðið er mjög stórt miðað við aðra líkamshluta.  Hendur og fætur lengjast og geta nú snerst.  Tær og fingur missa sundfitin.  Fóstrið vegur nú um 8 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 3,5 sm.

Vika 11

Ef þú hefur þjáðst af ógleði er hún nú líklega á undanhaldi. Blóðmagnið fer vaxandi og það helst þannig fram yfir fæðingu. Fylgjan stækkar til að mæta auknum þörfum fóstursins.

Hjartað er nú að fullu myndað og starfar á fullu.  Ytri og innri eyru hafa mótast en eiga eftir að stækka.  Fóstrið lítur nú út eins og pínulítil manneskja með stórt höfuð og stutta útlimi og lengd frá höfði að rófubeini er nú um 4,5 sm og það vegur um 10 grömm.

Vika 12

Það er oft um þetta leyti sem konur fara í fyrstu skoðun í meðgönguvernd.  Það getur verið gott að skrifa niður þær spurningar sem þig langar að spyrja um svo þú gleymir ekki að spyrja ljósmóðurina.

Fóstrið er á töluverðri hreyfingu í leginu án þess að þú verðir þess vör því það er nóg pláss fyrir hreyfingu í legvatninu án þess að það snerti legið.  Fylgjan sendir súrefni og næringu um bláæð naflastrengsins og tekur við úrgangsefnum um slagæðarnar tvær í naflastrengnum. Fóstrið vegur nú um 18 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 6 sm.

Vika 13

Fötin eru e.t.v. farin að þrengja að þér og líklegt að fólk fari að taka eftir smá kúlu.  Ef þú hefur haft ógleði ætti hún að hætta núna eða fjara út fljótlega.

Fóstrið er nú farið að sjúga, kyngja og gera öndunaræfingar.  Í vatnsbelgnum sem umlykur fóstrið eru um 100 millilítrar af legvatni.  Eyrun eru fullsköpuð en fóstrið heyrir þó ekki ennþá.  Lungu, lifur, nýru og meltingarvegur eru enn að þroskast.  Höfuðið vex nú hægar en búkurinn síðan í viku 11.  Í lok þessarar viku ætti allt að vera komið á sinn stað og tilbúið til að vaxa.  Fóstrið vegur nú um 30 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 7,5 sm.

Vika 14

Þú ættir að vera orðin eitthvað hressari núna. Dökk rák hefur e.t.v. myndast frá nafla og niður en hún hverfur eftir fæðingu. Legið er nú á stærð við greipaldin og líklega er farið að sjá aðeins á þér. 

Fóstrið er nú sennilega komið með eitthvert hár á höfuðið og getur hreyft höfuðið, handleggi og fætur. Fóstrið vegur um 45 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 8,5 sm.

Vika 15

Hjartað í þér hefur aukið afkastagetuna enda hefur blóðmagn aukist í líkamanum. Sumar konur skynja það sem óþægilegan hjartslátt, án þess þó að vita ástæðuna. Fötin þín virðast hafa þrengst enn meir.

Ef barninu er ætlað að verða dökkhært hefst nú framleiðsla litarefnisins. Neglur á fingrum fóstursins eru að myndast og andlitsdrættir eru að skýrast.  Fóstrið  getur sogið þumalfingurinn.  Húð fóstursins er ennþá mjög þunn.  Nú byrjar fóstrið að þyngjast hraðar.  Fljótlega verða hreyfingar handa og fóta meira samhæfðar.  Frumstæðir öndunartilburðir virðast eiga sér stað í brjóstkassanum. Fóstrið vegur nú um 80 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 9,5 sm.

Vika 16

Það er mögulegt að þú getir fundið hreyfingar fóstursins.  Á þessu stigi geta hreyfingar líkst því að fiðrildi sé í maganum.  Það er líka alveg eðlilegt þó að þú finnir ekki hreyfingar fyrr en eftir nokkrar vikur.  Sárir stingir beggja veggna á kviðnum geta verið merki þess að liðbönd séu eitthvað farin að gefa eftir. Nú eru u.þ.b. 180 ml af legvatni og legið þitt er eins og blaðra full af vatni. 

Liðamót fóstursins eru nú öll farin að virka og fóstrið getur vel hreyft fingur og tær.  Táneglur eru rétt að byrja að myndast.  Höfuðið er enn hlutfallslega stærra en restin af líkamanum sem nú vex hlutfallslega hraðar svo þetta á eftir að jafna sig.  Dúnmjúk fósturhár eru byrjað að vaxa á líkama fóstursins.  Fóstrið vegur nú um 110 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 11,5 sm.

Vika 17

Þú gætir svitnar mikið, þér er hættara við nefstíflu og útferð frá leggöngum gæti aukist.  

Kynfæri fóstursins eru nú að fullu mynduð.  Nýru fóstursins framleiða mikið þvag og fóstrið pissar á 40 - 45 mínútna fresti.  Þvag fóstursins verður því hluti af legvatninu sem fóstrið kyngir svo.  Mest af úrgangsefnum fóstursins fara þó um fylgjuna og í blóðrásarkerfi þitt. Líkami þinn sér svo um að losa sig við úrgangsefnin.  Fóstrið vegur nú um 150 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 13 sm.

Vika 18

Ef þetta er frumburður þinn gætirð þú orðið vör við fósturhreyfingar en þær geta líkað verið nokkrum vikum seinna á ferðinni.  Fóstrið hreyfir sig líklega mest þegar þú hvílist. Það getur verið gott að nota kodda til stuðnings við kúluna þegar þú sefur eða liggur fyrir.  

Sumir telja að nú geti fóstrið sýnt ýmis konar svipbrigði og það hreyfir sig mikið.  Dúnmjúk fósturhár þekja nú allan líkamann.  Blóðkorn eru byrjuð að myndast í beinmerg og bragðlaukar eru að myndast.  Fóstrið vegur nú um 200 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 14 sm.

Vika 19

Ef til vill ertu orðin meiri um þig aftan til og mittið ekki eins greinilegt.  Þú mæðist og svitnar meira við áreynslu en áður en það stafar af efnaskiptabreytingum. Fóstrið hefur ennþá nóg pláss til að hreyfa sig en ef þú hefur enn ekki fundið hreyfingar þá máttu búast við því hvenær sem er. 

Vöðvar fóstursins hafa þroskast meira og fóstrið er að safna á sig brúnum fituforða sem hjálpar því að halda á sér hita.  Það vegur nú um 260 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 15 sm.

Vika 20

Naflinn á þér gæti nú verið farinn að snúa „röngunni” út.

Vöðvar fóstursins þroskast mikið og fóstrið notar vöðvana mikið til að hreyfa sig. Fitukirtlar húðarinnar verða virkir og fara að framleiða fósturfitu sem á eftir að þekja fóstrið til verndar húðinni.  Það vegur nú um 320 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 16 sm.

Vika 21

Vera kann að þú fáir brjóstsviða eða meltingatruflanir.

Augu fóstursins eru ennþá lokuð og verða það þar til í 27. viku.  Fóstrið getur nú heyrt hljóð að utan.  Heilinn hefur verið að þroskast mikið en yfirborð hans er ennþá slétt ólíkt því sem við þekkjum. Fóstrið vegur nú um 390 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 18 sm.

Vika 22

Þú gætir fundið fyrir einhverjum meðgöngukvillum s.s. bakverkjum, sinadrætti, æðahnútum, fjörlegum draumum eða verið með þrota í tannholdinu. Mesta þyngdaraukningin verður á öðrum þriðjungi meðgöngunnar.  Fóstrið vegur nú tiltölulega lítið í samanburði við annað sem er nauðsynlegt, þ.e. aukið blóðmagn, legvatn, stærra leg, stærri brjóst og auka fituforða.

Fóstrið hreyfir sig mikið fer í kollhnís og virðist vera hvað fjörugast einmitt þegar þú slakar á. Innra eyrað er nú á stærð við innra eyra fullorðinnar manneskju.  Nú eru komnar augabrúnir og hár á höfuðið.  Lungun eru byrjum að framleiða efni sem heitir „surfactant“ en það er er efni sem er nauðsynlegt til að lungun geti starfað eðilega.  Fóstið vegur um 460 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 19 sm.

Vika 23

Það þrýstir meira og meira á þvagblöðruna þannig að það er eðlilegt að þú þurfir að pissa oftar.   Þú gætir byrjað að finna fyrir samdráttum.  Samdrættir lýsa sér þannig að kúlan verður hörð án þess að það sé sárt.  Samdrættir aukast yfirleitt eftir því sem líður á meðgönguna og flestar konur finna fyrir samdráttum á síðustu vikum meðgöngunnar en sumar konur finna aldrei fyrir samdráttum.  Þó að þessir samdrættir séu eðlilegir er ekki eðlilegt að finna fyrir fleiri en 4 samdráttum á klukkustund.

Fóstrið stækkar nú hratt og heilinn er stöðugt að þroskast.  Húðin vex líka hratt en það er enn ekki mikil fita undir húðinni.  Fóstrið vegur nú um 540 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 20 sm.

Vika 24

Hægðatregða er einn meðgöngukvillunum sem gæti byrjað að gera vart við sig.  Breytingar á blóðrásarkerfi geta valdið því að blóðþrýstingurinn lækkar á þessu tímabili og því gætir þú fundið fyrir svima.  Þetta getur einnig gerst þegar þú liggur á bakinu vegna þess að legið sem alltaf verður þyngra og þyngra þrýstir þá á stóru bláæðina í kviðarholinu sem flytur blóð til hjartans frá neðri hluta líkamans.  Ef þú finnur fyrir svima þegar þú liggur á bakinu, skaltu snúa þér á aðra hvora hliðina.  Efri brún legsins er nú á móts við naflann. Þegar þú þreifar á barninu geturðu fundið fyrir hinum ýmsu líkamshlutum.

Nú eru skilningarvit barnsins að vakna til lífssins. Eftir að það er fætt gæti það munað eftir lögunum sem þú ert að syngja fyrir það núna. Einhvern daginn þegar þú ert alveg vitlaus í skapinu er barnið þitt sama sinnis og sparkar allt hvað af tekur. Það er mögulegt að börn sem fæðast við 24 vikna meðgöngu geti lifað af fái þau notið umönnunar á nýburagjörgæslu en það er þó alls ekkert öruggt í þeim efnum.  Stærsta vandamálið er að lungun eru ekki nógu þroskuð og þess vegna þarf fyrirburinn aðstoð við öndun.  Barnið er ennþá mjög grannt en fer að bæta á sig úr þessu.  Það vegur nú um  630 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 21 sm.

 

Vika 25

Barnið getur verið farið að þrýsta á rifbeinin þín og einnig á meltingarveginn.  Þú getur fundið fyrir verkjum í síðunum vegna þess að legið er að stækka.

Barnið samsvarar sér mjög vel og líkist nú nýfæddu barni.  Það er nú þegar búið að koma sér upp sínu svefnmynstri og er venjulega vakandi þegar þú sefur og sefur þegar þú vakir því hreyfingar þínar hafa róandi áhrif á barnið.  Barninu gæti brugðið við háværa tónlist og byrjað að hreyfa sig.  Barnið vegur nú um 720 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 22,5 sm.

Vika 26

Hugsaðu vel um þig.  Mundu að þú þarft að hvílast vel en einnig að hreyfa þig.  Ef þú gengur um á háum hælum þá er ekki seinna vænna að hætta því núna. 

Á næstu vikum mun barnið bæta á sig fitu og vöðvamassa.  Með hverri viku sem nú líður aukast möguleikar á að barnið lifi af ef það fæddist fyrir tímann.   Þó að augun séu enn lokuð getur barnið greint birtu og nú getur það einnig fundið lykt.  Það getur nú einnig greint mismunandi raddir.  Það vegur nú um 820 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 23 sm.

Vika 27

Nú hefst þriðji þriðjungur meðgöngunnar!  Mundu eftir að drekka vel af vatni.  Það getur verið gott að setja fæturna upp á stól þegar þú situr.

Þar sem barnið hefur nú stækkað svo mikið er að verða aðeins þrengra um það í leginu.  Börn sem fæðast við 27 vikna meðgöngu hafa góðar líkur á að lifa af.  Barnið hefur stundað öndunaræfingar af og til en nú verða þessar öndunaræfingar reglulegri og stöðugri.  Nú hafa myndast fellingar á yfirborði heilans sem nú þroskast mjög hratt.  Það er rétt að geta þess að ef barn fæðist fyrir tímann heldur þroskinn áfram utan legsins en börnin eru þá venjulega höfð í hitakassa og eru tengd við öndunarvél.  Barnið vegur nú um 920 grömm og lengd frá höfði að rófubeini er um 24 sm.

Vika 28

Broddur getur verið farinn að leka úr brjóstunum en hann myndast yfirleitt um 16. viku meðgöngunnar.

Barnið getur verið byrjað að hiksta og gerir það oftast þegar þú ert að hvíla þig.  Augun eru að byrja að opnast og barnið er nú þakið fósturfitu.  Á næstu vikum mun barnið stækka meira og samsvara sér betur og betur.  Barnið vegur nú um 1 kíló og lengd frá höfði að rófubeini er um 25 sm.

Vika 29

Nú getur verið erfitt að finna þægilega stellingu til að sofa í.  Yfirleitt er ekki mælt með því að barnshafandi konur liggi á bakinu vegna þess að þyngdin frá barninu í leginu getur þrýst á stóru bláæðina sem liggur meðfram hryggnum.  Þetta getur valdið vanlíðan og þá jafnframt lélegra blóðflæði um fylgjuna.  Ef þig langar að liggja á bakinu getur þú sett kodda undir hægri mjöðmina því þannig léttir á þrýstingnum.  Notaðu kodda til stuðnings til að koma þér vel fyrir svo þú getir hvílst. 

Barnið hefur nú bætt á sig og er að verða bústnara.  Öndunaræfingarnar eru ennþá reglulegri og stöðugri með minni hvíldum inn á milli.  Barnið vegur nú um 1.15 kíló og lengd frá höfði að rófubeini er um 26 sm.

Vika 30

Brjóstin á þér eru enn að stækka.  Þú gætir byrjað að finna fyrirvaraverki þó að flestar konur finni ekki fyrir þeim fyrr en á síðustu vikunum.  Raunverulegir hríðverkir standa yfir í u.þ.b. eina mínútu og koma á fimm mínúntna fresti eða minna og standa yfir í a.m.k. klukkustund.  Fyrirvaraverkir standa styttra yfir eru ekki eins sárir og koma óreglulega.

Á næstu vikum mun barnið bæta á sig fitu í meira mæli en áður.  Húðin er ennþá svo krumpuð svo það er nóg pláss fyrir meiri fitu undir húðinni.  Fósturhárin fara nú að minnka og augun hafa opnast alveg.  Hiksti barnsins verður meira áberandi.  Barnið vegur nú um 1,3 kíló og lengd frá höfði að rófubeini er um 27 sm.

Vika 31

Nú gæti komið í ljós slit á húðinni á maganum en það er ekkert víst.  Nú stendur kúlan alltaf meira og meira út í loftið og þess vegna þarftu að gæta að jafnvæginu.

Barnið getur blikkað eða lokað augunum t.d. þegar sterkt ljós lýsir á kúluna.  Heilastarfsemi barnsins er mjög virk.  Barnið er yfirleitt sofandi þegar þú ert vakandi en vakandi þegar þú ert sofandi.  Barnið vegur nú um 1,5 kíló og lengd frá höfði að rófubeini er um 27,5 sm.

Vika 32

Lungun þín eru að styrkjast en þrátt fyrir það getur þú fundið fyrir mæði vegna þrýstingsins á brjóstkassann frá kviðarholinu.  Mörgum konum finnst nú nóg komið af meðgöngunni og eru orðnar leiðar á að vera svona stórar, passa ekki í nein föt og ekki bætir svefnleysið úr leiðanum.  Það er ekki svo langt eftir en barnið á eftir að taka út mikilvægan þroska.

Lungu barnsins eru líka að styrkjast en þau eru ekki tilbúin ennþá.  Nú er fituforði barnsins orðin meiri þó að það sé grannt ennþá.  Barnið er þakið fósturfitu.  Ef það kæmi í heiminn í núna gæti það opnað augun en gæti þó ekki séð í fókus.  Barnið vegur nú um 1,7 kíló og lengd frá höfði að rófubeini er um 28 sm.

Vika 33

Þú ert örugglega komin með mjög myndarlega kúlu og  naflinn stendur eflaust út.  Ef til vill ertu núna að hugsa um hvort mögulega komist bara meira fyrir þarna inni!

Allt sem barnið þarfnast núna er meira af efninu „surfactant“ sem þarf að þekja lungun svo og meiri fitu.  Það á mjög mikla möguleika á að lifa af ef það myndi fæðast núna.  Barnið er nú farið að blikka augunum og byrjað að fókusera á hluti nálægt sér s.s. eigin útlimi og naflastreng.  Barnið vegur nú um 1,9 kíló og lengd frá höfði að rófubeini er um 29 sm.

Vika 34

Nú mun barnið nýta sér allt það pláss sem það mögulega getur og þrýsta á allt sem það getur, til dæmis lungun.  Ef þér finnst erfitt að ná andanum getur hjálpað að sitja eða standa.  Ef þú hefur áhuga á fara á námskeið til undirbúnings fæðingunni eða foreldrahlutverkinu þá er ekki seinna vænna en að drífa sig.  Það er líka tímabært að byrja að taka til föt á barnið.

Barnið er ansi upptekið við að undirbúa sig fyrir lífið utan legsins.  Það æfir sig að sjúga, gerir öndunaræfingar, blikkar augunum, snýr höfðinu, tekur utan um það sem það nær í (hina höndina og naflastrenginn) og réttir úr fótunum.  Húð barnsins er að verða mjög mjúk og ekki eins gegnsæ.  Barnið vegur nú um 2,1 kíló og lengd frá höfði að rófubeini er um 30 sm.

Vika 35

Barnið er farið að þrýsta það mikið á magann þinn svo það getur verið betra fyrir þig að borða oftar en minna í einu.  Ef þú ert með bjúg sem getur verið alveg eðlilegt þá eru skórnir ef til vill orðnir of þröngir.  Það getur verið gott að vera í sandölum nema þegar þú þarft að vera skóm sem styðja vel við ökklann.  Það er gott að ganga eitthvað á hverjum degi ef þú getur.  Til að minnka bjúg á fótum er gott að sitja þegar tækifæri gefst og setja fætur upp á eitthvað eða jafnvel ennþá betra að leggjast og setja fæturna aðeins hærra.   Það getur einnig hjálpað að gera léttar fótæfingar svo sem að snúa ökklunum í hringi og teygja og rétta úr fótunum til skiptis.  Sund er einnig gott til að draga úr bjúg og getur veitt slökun og vellíðan.

Nú er barnið komið með táneglur og neglurnar á fingrunum geta náð fram fyrir fingurgómana og barnið getur því klórað sig nú þegar.  Barnið vegur nú um 2,3 kíló og lengd frá höfði að rófubeini er um 31 sm.

Vika 36

Það er ekki óeðlilegt að finnir fyrir verulegri þreytu.  Hlustaðu á líkamann og hvíldu þig ef þú ert þreytt. 

Lungu barnsins hafa enn ekki náð fullum þroska en það hefur bætt á sig heilmikilli fitu.  Ef barnið er ekki komið í höfuðstöðu núna þá ætti það að gerast fljótlega.  Barnið vegur nú um 2,5 kíló og lengd frá höfði að rófubeini er um 32 sm.

Vika 37

Það gæti lekið vökvi úr brjóstunum þínum.  Það getur lekið við það að þú heyrir barn gráta en það einnig lekið alveg upp úr þurru.  Það sem lekur er broddurinn sem inniheldur prótein og mótefni.  Broddurinn er hin fullkomna fæða fyrir nýfætt barn, það besta sem barnið fær áður en mjólkin fer að myndast.  Barnið getur ekki hreyft sig mikið um þar sem plássið er alltaf að verða minna og minna.  Spörkin og bylturnar eru hins vegar kraftmikil.  Nú er mjög mikilvægt fyrir þig að fá eins mikla hvíld og svefn og þú mögulega getur.  Fæðingin verður auðveldari og þú verður fljótari að jafna þig ef þú ert vel úthvíld. 

Barnið heldur áfram að þyngjast.  Litlu lungun eru að verða tilbúin til að starfa.  Barnið hefur nú þétt grip með höndunum og kyngir um 750 ml af legvatni á dag. Það vegur nú um 2,7 kíló og lengd frá höfði að rófubeini er um 32,5 sm.

Vika 38

Þú hefur líklega mikla þörf fyrir að vera í hreiðurgerð!  Margar konur finna hjá sér þörf fyrir að vera að þrífa allt hátt og lágt.  Passaðu þig bara á því að vera ekki að standa upp á stól eða tröppu alveg sama hversu mikið ryk þér finnst vera þarna uppi.  Mundu að það er mikilvægt að hvíla þig vel og að létt hreyfing s.s. stuttar gönguferðir eru af hinu góða.

Þegar þessi vika hefst er barnið fullburða þ.e.a.s. fullþroskað.  Fósturhárin eru að mestu leyti dottin af en fósturfitan er ennþá til staðar.  U.þ.b. 14 grömm af fósturfitu tapast nú á hverjum degi.  Í ristli barnsins er heilmikið af fósturhægðum.  Barnið vegur nú um 2,9 kíló og lengd frá höfði að rófubeini er um 33 sm.

Vika 39

Leghálsinn gæti verið farinn að mýkjast, styttast og þannig að undirbúa sig fyrir að opnast.  Slímtappinn gæti einnig farið hvenær sem er en það getur verið merki um að fæðingin verði á næstu dögum en jafnvel fyrr.  Þú gætir fundið meira fyrir samdráttum í leginu (kúlan harðnar) en einnig gætir þú fundið fyrirvaraverki.  Samdrættir lýsa sér þannig að kúlan verður hörð án þess að konan verði vör við verki.  Fyrirvaraverkir eru samdrættir ásamt verkjum sem koma óreglulega og standa oft stutt yfir.  Verkirnir eru ekki óbærilegir en óþægilegir.  Fyrirvaraverkir hætta oft við hvíld.  Það er talið að fyrirvaraverkir geri gagn því þeir undirbúa leghálsinn með því að mýkja hann.  Fyrirvaraverkir eru algengari hjá konum sem fætt hafa áður.  Byrjandi fæðing lýsir sér með samdráttum ásamt verkjum, oft kallað hríðir eða fæðingarhríðir.  Hríðirnar koma reglulega, lagast ekki í hvíld og aukast smám saman, styttra verður á milli þeirra og hver hríð varir lengur.  Legvatn getur farið í byrjun fæðingar án þess að hríðir komi strax í kjölfarið en algengara er að legvatn fari í lok útvíkkunartímabils.

Kynfæri barnsins eru óvenju stór en það er vegna áhrifa frá þeim hormónum sem þú framleiðir.  Þetta jafnar sig nokkrum dögum eftir fæðingu.  Nú hægir aðeins á þyngdaraukningu barnsins og undirbúningur fyrir fæðinguna hefst af fullum krafti.  Barnið vegur nú um 3.2 kíló og lengd frá höfði að rófubeini er um 34 sm.

Vika 40

Þetta er vikan sem allir hafa beðið eftir!  Í lok þessarar viku ertu „á tíma“!  Það er samt ekki þar með sagt að þessi tími henti barninu þínu enda er þetta bara meðatals tími og í raun mjög ólíklegt að barnið komi akkúrat í heiminn á „settum degi“!

Barnið er kringluleitara og feitara og í sjálfu sér tilbúið að fæðast.  Nú er það 200 sinnum þyngra en það var á 12. viku.  Strákar eru oft stærri en stelpur.  Barnið vegur nú um 3,5 kíló og lengd frá höfði að rófubeini er um 35 sm.

Vika 41

Ef meðgangan þin var akkúrat 40 vikna löng þá er barnið fætt og kannski að hvíla sig eftir ferðalagið.  Eftir að barnið fæðist verður skyndilega mikil breyting á hormónastarfsemi þinni.  Á eftir barninu kemur fylgjan sem hefur framleitt mikið af hormónum.  Skyndilega dregur úr framleiðslu ákveðinna hormóna en önnur koma í staðinn s.s. prólaktín sem hvetur til mjólkurmyndunar.    Kúlan hverfur ekki alveg strax þó að þú hafir fætt barnið en hún minnkar mjög mikið.  Það blæðir frá leggöngunum en það er blóð sem kemur frá þeim stað þar sem fylgjan festist við legið.   Þú þarft að jafna þig eftir fæðingu barns hvort það fæddist eðlilega eða með keisaraskurði.  Það eina sem þú átt að gera núna er að jafna þig og vera með barninu þínu.

Nýfætt barn er yfirleitt vakandi fyrst eftir að það fæðist m.a. vegna áhrifa frá streituhormónum sem það framleiðir í fæðingunni.  Það hefur mikla sogþörf  og þörf fyrir hlýju og öryggi.  Því fyrr sem það kemst á brjóst – því betra! 

..............................................................................................................................

Ef barnið þitt er ekki ennþá fætt þá er bara að bíða í rólegheitum! 

Vika 42

Legið þitt dregst hægt og rólega saman.  Brjóstagjöfin ýtir undir að legið dragist vel saman.  Vöðvar og liðbönd eru að jafna sig eftir áhrifin frá hormóninu Relaxin.  Þetta getur þó tekið 4 mánuði að jafna sig alveg.  Það tekur líka tíma að losna við bjúg en hann minnkar smám saman.

Barnið fer nú að vaxa hratt og stundum finnst þér eins og þú sjáir dagamun.  Barnið sér ekki mikið því það getur aðeins fókuserað á hluti sem eru 30 sm eða nær.

..............................................................................................................................

Ef barnið þitt er ekki ennþá fætt þá munu ljósmóðirin og læknirinn gera áætlun um að fæðing verði framkölluð í lok þessarar viku!