Ingó, Erna og Litli-Úlfur
 

Fæðingarsagan

Ég vaknaði rétt fyrir 7 um morguninn þann 2. nóvember. Ég var orðin mjög vön þessu, þar sem ég var farin að vakna kl. 7 á hverjum morgni í nokkrar vikur, og lá því bara uppí rúmi og beið eftir að sofna aftur. Ég fann fyrir barninu brölta inní bumbunni eins og venjulega, en allt í einu kom kröftugt spark beint fyrir ofan naflann á mér og mér fannst eins og ég hefði heyrt svona "smell" inní höfðinu á mér. Ég var búinað heyra sumar konur tala um þennan smell þegar þær missa vatnið, þannig að ég ákvað að prófa að standa upp, og viti menn, eitthvað byrjaði að leka niður lærið á mér. Ég stökk inn á klósett og eftir nokkrar mínútur fann ég sterkan samdrátt, MIKLU sterkari en þessir fyrirvaraverkir sem ég var búin að vera að finna síðustu vikur. Þannig að núna vissi ég að ballið væri byrjað.

Ég fór inní herbergi, vakti Ingó og sagði honum að ég héldi að vatnið væri farið. Ingó varð náttúrulega voða spenntur en hélt samt alveg rónni. Ég hringdi niður á Hreiður og sagði þeim frá stöðu mála. Á meðan ég var í símanum hörðnuðu verkirnir alveg helling og það styttist verulega á milli þeirra. Ljósmóðirin á Hreiðrinu sagði mér að taka tímann á milli í ca hálftíma og hringa svo í sig aftur. Þannig að ég lagðist upp í rúm með skeiðklukku, en á þeim tíma voru strax orðnar bara 2-2 og hálf mínúta á milli hríða, þannig að ég beið þennan hálftíma, hringdi svo aftur og sagði bara ÉG ER AÐ KOMA!

Ferðin út í bíl tók nokkrar hríðir, en þegar við vorum aðeins komin af stað föttuðum við að við vorum að sjálfsögðu í miðri 8.00 umferðinni og ég sá með hryllingi bílaraðirnar myndast á götunum og ökuhraðann detta niður í ekki neitt. Ég man það ekki nákvæmlega en mig minnir að annsi mörg vel valin blótsyrði hafi sloppið út úr mér á þessari leið, sem þrátt fyrir umferðina tók styttri tíma en ég hafði óttast. Alla leiðina hélt áfram að leka vatn í hverri hríð og sem betur fer hafði Ingó verið búinn að setja poka með handklæðum í bílinn minn {#emotions_dlg.tongue_out}

Þegar við komum inn á Hreiður tók á móti okkur yndislegasta ljósmóðir í heimi, hún Árdís. Hún setti mig í rit sem var að mæla samdrætti á ca 2 mínútna fresti. Hún kenndi mér líka góða öndunaraðferð til að nota í hríðunum, að "purra" eins og hestur. Það hjálpaði rosalega til að takast á við verkina, því þeir voru orðnir annsi harðir. Eftir að hafa verið í riti í smá stund skoðaði hún leghálsinn hjá mér og sagði mér að hann væri nú alveg full styttur og mjúkur, ca 4cm í útvíkkun (hafði verið 3-3,5 cm í síðustu skoðun viku fyrr), en að þetta hefði sennilega verið millibelgjavatnið sem var að fara hjá hjá mér, því það væri ennþá fullt af legvatni i belgnum og að kollurinn á barninu væri ennþá frekar ofarlega.

Eftir það fórum við inn á fæðingarherbergi 19, sem er með stóru rúmi og baðkari. Ég var mjög fegin að sjá baðið þarna, því ég ætlaði eftir fremsta megni að reyna að eiga í baðinu. Árdís vildi samt ekki hleypa mér strax í baðið því hún sagði að þegar konur færu of snemma á útvíkkunarferlinu í baðið gæti það orðið til þess að sóttin dytti niður, og ekki vildum við það nú. Þannig að ég plantaði mér í Lazy-boy stólinn sem var þarna inni og fékk hitapoka við bakið til að deyfa verkina. Ég prófaði að standa upp, liggja á hlið, fara á 4 fætur og ýmsar aðrar stellingar í hríðunum, en mér leið langsamlega best í Lazy-boy stólnum og ég hélt mig mest þar eiginlega allan daginn. Ingó var mér þvílík stoð og stytta og talaði slökunina í mig í hríðunum, og reyndi að koma mat ofaní mig á milli hríðana.

Útvíkkunin var athuguð aftur um 12 leytið og var þá komin í ca 5. Hún var svo aftur athuguð um kl 16.00 og var þá ennþá bara 5, og kollurinn ennþá frekar hátt uppi. Þarna var aðeins farið að hægja á hríðunum og komnar ca 3-4 mínútur á milli og ég sá að hún Árdís var ekki alveg nógu ánægð með gang mála. Hún setti mér það verkefni að reyna eins og ég gæti að standa í hríðunum til að nota þyngdaraflið, en ég var orðin svo úrvinda af þreytu að það var mér allt of erfitt! Um kl. 6 fór Árdís og talaði við aðra ljósmóður, Gullu, og þær komu sér saman um að prófa að sprengja belginn og athuga hvort það myndi hjálpa eitthvað. Næsta skref hefði verið að setja upp hríðaukandi dripp, en þá hefði ég þurft að fara af Hreiðrinu yfir á fæðingaganginn og við vildum helst forðast það. 

Belgurinn var svo sprengdur um kl.19 og Gulla stýrði kollinum á honum rétt niður, og þá fór sko að færast fjör í leikinn!! Þessar hríðir sem ég hefði verið með allan daginn voru bara PRUMP miðað við það sem fór þá að gerast. Ég fékk að fara í baðið um leið og allt legvatnið var lekið og búið var að mæla hjartsláttinn hjá barninu í smá stund, en varð fyrir alveg ótrúlegum vonbrigðum, því það deyfði verkina mína ekki neitt!! Mér fannst að vísu mjög gott að finna þyngdarleysið á milli hríða, en þetta var samt ekkert eins og ég hafði ímyndað mér. En ég hafði eiginlega engan tíma til að hugsa um það því hríðirnar voru orðnar svo rosalegar að ég gat ekkert gert nema setið og purrað mig í gegnum þær. Kl. 20 var ég orðin svo aðframkomin af sársauka að ég mjálmaði eftir mænudeyfingu. Þá var Árdís búin á vakt og farin heim og Gulla alveg tekin yfir hjá okkur. Hún fór á stúfana að athuga með deyfingu fyrir mig en það var svo brjálað að gera að hún sagði að það gæti tekið alveg uppí klukkutíma að fá deyfinguna. Hún athugaði útvíkkunina hjá mér og okkur til mikillar gleði var hún orðin milli 7 og 8 cm.

Stuttu seinna kom inn kona frá fæðingagangi sem sagði að okkur væri velkomið að koma yfir ef ég vildi fá deyfinguna, og ég byrjaði að klöngrast uppúr baðinu. En um leið og ég stóð upp kom hríð og ég gat ekki annað en sest aftur niður og sætt mig við það að ég kæmist ekki upp úr baðinu héðan af. Við afþökkuðum því mænudeyfinguna og þegar útvíkkunin var athuguð aftur var hún komin í ca 9,5 og ég var komin með svolitla rembingsþörf. Gulla hjálpaði þessum síðasta hálfa cm og sagði mér að ég mætti bara rembast eins og ég vildi. Þá var klukkan held ég um 20.45. Ég byrjaði að rembast og fann með hverri hríð hvernig hausinn þrýstist neðar og neðar og ég gat ekki hamið pínu öskur eftir hvern rembing. Ég man að eins út úr heiminum og ég var á þessum punkti, var ég samt með móral yfir þessum öskrum. Ég var viss um að það væri örugglega einhver ung stelpa í næsta herbergi að eiga fyrsta barn og heyrði bara í einhverri óhemju og væri að deyja úr skelfingu!

Hausinn kom svo út í einni hríð og ÞVÍLÍKUR LÉTTIR!!! Ég fór eiginlega í hálfgerða slökunarvímu þarna með hausinn út en búkinn ennþá inni og eina sem ég gat hugsað var, JÆJA ÉG ER HÆTT! Mér fannst ég ekki þurfa að gera neitt meira, það væri bara hægt að toga restina af honum út! Það var rosalega spes tilfinning að finna hann hreyfa höfuðið ofaní vatninu og finna líka bröltið í honum inní bumbunni. Ég slakaði svo rosalega vel á þarna að það kom engin hríð og þeim var hætt að lítast á hvað þetta tók langan tíma. Það var komin önnur ljósmóðir inn til okkar og hún gaf mér nefsprey til að auka hríðir og loks gat ég byrjað að rembast aftur. Nema hvað, ég átti bara ekki styrk til að koma búknum út sjálf, þannig að Gulla hjálpaði aðeins til og togaði með, og loksins skaust hann út í vatnið og var skellt beint í fangið á mér. Ég held að ég eigi aldrei eftir að geta fundið orð til að lýsa tilfinningum okkar Ingós á þessu augnabliki! Ljósurnar kommentuðu strax á það hvað hann væri stór og myndarlegur. Gulla vildi fá mig sem fyrst upp úr baðinu til að skoða mig og því var skilið á milli eiginlega strax. Ingó fékk að klippa og við tókum eftir því að það var kominn hnútur á strenginn! En það kom mér svosem ekkert á óvart miðað við allt bröltið á þessu barni síðustu mánuði {#emotions_dlg.laughing} Fylgjan kom síðan í einum rembingi og ég klöngraðist uppí rúm að láta skoða mig. Gulla var búin að sauma einhver nokku spor í mig þegar hún uppgötvaði einhverja voða mikla rifu og vildi kalla á sérfræðing. Sérfræðingurinn ákvað að ég skyldi svæfð og send í pínu aðgerð út af því að ég væri með 4.gráðu rifu.

Þegar ég vaknaði eftir svæfinguna var mér svo rúllað inn í fjölskylduherbergi í Hreiðrinu og við eyddum nóttinni þar í rólegheitum og fórum heim seinnpart næsta dags.