Ernir Daði Sigurðsson
 

Tvíburinn

Tvíburinn



(21. maí - 20. júní)

Tvíburinn er síðasta vormerkið og líkt og með Hrútinn og Nautið má sjá ákveðin voreinkenni í fari hans. Júní er tími heimsókna og ferðalaga, því ófærð og kyrrstaða vetrarins er að baki. Á tíma Tvíburans er sumarið farið að nálgast og góðviðri er ríkjandi. Léttleiki, heiðríkja og bjartsýni eru því einkennandi, en jafnframt hreyfanleiki og félagslyndi. Hann er opinn og yfirleitt vingjarnlegur. Grunneðli hans er jákvætt og bjart og einkennist af töluverðri stríðni, gamansemi og góðlátlegri glettni, og einnig af hressileika og málgefni.

Fjölbreytni
Tvíburinn þarf fjölbreytni til að viðhalda lífsorku sinni. Í raun líður honum best þegar mikið er um að vera og þess er krafist að hann sinni hverju verkinu á fætur öðru. Hann hefur hæfileika til að gera margt á sama tíma. Dæmi um það er sölumaðurinn sem talar í tvo síma í einu og veifar til manns sem hann sér úti á götu um leið og hann réttir viðskiptavinum sýnishorn af vöru sinni. Þó hinn venjulegi Tvíburi sé kannski ekki svona kræfur leiðist honum vanabinding og hann verður þreyttur ef hann þarf að fást of lengi við sama verkið. Fjölbreytni og hreyfing eru honum nauðsynleg til að viðhalda orku sinni. Það er því æskilegt að Tvíburinn skipti reglulega um umhverfi, enda er ein uppáhaldssetning hans: "Ég þarf aðeins að skreppa."

Félagslíf
Tvíburinn þarfnast lifandi umhverfis og vitsmunalegrar umræðu til að endurnýja orku sína. Ef hann er bundinn inni á heimili, er í félagslegri einangrun eða er fastur yfir sömu einhæfu handtökunum í vinnu, verður hann fljótt leiður, þreyttur og slappur. Þegar mikið er um að vera og nóg af fólki, forvitnilegum atburðum og umræðu, lyftist geð hans og orkan eykst. Ef hann er ekki léttur og hress, gæti ástæðuna verið að rekja til of einhæfra lífshátta.

Upplýsingamiðlun
Tvíburinn er loftsmerki. Það táknar að orka hans liggur á félagslegum og hugmyndalegum sviðum. Tvíbura fellur því vel að vinna störf sem krefjast hugarbeitingar og fjalla um margvísleg málefni, enda er hann fljótur að setja sig inn í ný mál. Lykilorð fyrir Tvíbura eru tjáskipti og upplýsingamiðlun. Einnig er æskilegt að hann starfi með fólki. Tvíburinn er félagslyndur og er í raun ekki nema svipur hjá sjón ef hann þarf að vinna einn. Forsenda vellíðunar hans felst í því að ræða málin, miðla upplýsingum og tala.

Forvitni
Tvíburinn er oftast forvitinn og fróðleiksfús. Ef starf hans er ekki fjölbreytt og fræðandi situr hann oft fyrir framan sjónvarp í frístundum sínum og horfir á alla mögulega og ómögulega þætti, því hann hefur yndi af því að fræðast á einn eða annan hátt. Þetta kemur stundum fram í áhuga á fræðibókum og áskrift að margs konar tímaritum.

Glaðlyndi
Hress og góðlegur svipur er einkennandi fyrir hinn dæmigerða Tvíbura. Hann hefur oft björt og sakleysisleg augu og léttur stríðnisglampi er áberandi, sérstaklega þegar honum finnst hann hafa skotið einum góðum á viðmælanda sinn. Þá á hann til að hristast allur og augun glitra og glampa af kátínu. Tvíburinn er oft málgefinn (staða Merkúrs skiptir miklu í þessu sambandi) og hefur gaman af því að segja frá, er sagnaglaður. Í fjölskylduboðum og öðrum samkvæmum gengur hann á milli manna og herbergja og segir margvíslegar sögur. Á því sviði sem öðrum einkennir það Tvíburann að hann fer úr einu í annað.

Fjölhæfni
Fjölhæfni einkennir Tvíburann auk félagslyndis og sagnagleði. Flestir dæmigerðir Tvíburar fást til dæmis við tvö til þrjú mismunandi störf. Það stafar af þörf þeirra fyrir tilbreytingu. Enn annað einkenni á Tvíbura er frelsisást. Honum er illa við öll bönd, sérstaklega ef þau hindra hreyfanleika hans. Því er það svo að þótt Tvíburinn sé að öllu jöfnu vingjarnlegur og glaðlegur, þá hleypir hann fólki ekki of nálægt sér. Hann vill einnig vera yfirvegaður og lætur því tilfinningar sínar ekki alltaf í ljós.

Tvískipting
Eins og nafnið Tvíburi gefur til kynna virðist oft sem um tvo persónuleika sé að ræða. Þetta birtist í fjölhæfni hans og þörf fyrir fjölbreytni, en einnig í óútreiknanlegu eðli eða því að hann getur sýnt tvö andlit, eftir umhverfi og aðstæðum.